Körfubolti

Kristinn með stóran þrist á úrslitastundu í sigurleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristinn Pálsson er hörku skytta.
Kristinn Pálsson er hörku skytta. Vísir/Getty
Kristinn Pálsson og félagar í Marist-skólaliðinu unnu sex stiga sigur á Siena í bandaríska háskólaboltanum í kvöld, 79-73. Leikurinn var æsispennandi og íslenski framherjinn setti niður mikilvæga körfu í lokin.

Kristinn Pálsson var með 9 stig, 3 stoðsendingar, 2 fráköst og 1 stolin bolta á 36 mínútum. Hann hitti úr 3 af 5 skotum sínum sem voru öll tekin fyrir utan þriggja stiga línuna.

Kristinn setti niður risastóra þriggja stiga körfu á úrslitastundu í leiknum og kom þá sínu liði í 73-70 þegar 88 sekúndur voru eftir af leiknum. Marist var yfir það sem eftir var leiksins.

Marist lenti 15-10 undir í upphafi leiks var einu stigi yfir í hálfleik, 31-30. Kristinn skoraði einn þrist í fyrri hálfleik og kom liðinu síðan í 44-41 í þeim seinni.

Þetta var langþráður sigur enda sá fyrsti hjá liðinu frá því fyrir jól. Marist var búið að tapa 11 leikjum í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×