Innlent

Kári um offituummælin: „Þessi skítur er á mína ábyrgð"

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Skærur þeirra Kára og Sigmundar tóku óvænta stefnu í gær.
Skærur þeirra Kára og Sigmundar tóku óvænta stefnu í gær.
„Þessi skítur er á mína ábyrgð, þessa lotu vann forsætisráðherra tíu-núll. Þó forgangsröðin sé ekki rétt hjá honum hvað varðar heilbrigðiskerfið,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar Erfðagreiningar, sem bað forsætisráðherrann Sigmund Davíð Gunnlaugsson afsökunar á ummælum sem höfð voru eftir honum í nýjasta tölublaði Reykjavik Grapevine í gær.

Í samtali við blaðið sagðist Kári ekki eiga í neinum deilum við Sigmund Davíð, þrátt fyrir að skærur þeirra á ritvellinum hafi verið fyrirferðamiklar í fréttum að undanförnu. „Ég á í engum deilum við hann,“ var haft eftir Kára. „Hvers vegna ætti ég að eiga í deilum við tveggja ára offitusjúkling?“

Ummælin fóru sem eldur í sinu um netheima og þótti mörgum Kári fara þarna full hörðum orðum um holdafar forsætisráðherrans.

Vísir skrifaði um ummælin í gær: Kári líkir Sigmundi Davíð við tveggja ára gamlan offitusjúkling

Kári segir að ummælin megi líklega rekja til þýðingarinnar.
Kári sagði í Vikulokunum á Rás 1 í morgun að það sem haft var eftir honum hafi ekki farið minna fyrir brjóstið á sér en öðrum og að hann skuldaði Sigmundi svo sannarlega afsökunarbeiðni.

Hann telur að ummæli sín megi að einhverju leyti rekja til þýðingar blaðamannsins, sem hann telur líklega ekki hafa náð öllum smáatriðunum úr samtali þeirra tveggja. Því hafi þetta komið verr út en hann hafi ætlað sér.

Kári segist í raun hafa átt við að þeir Sigmundur Davíð litu út eins og tveir tveggja ára strákar sem rífast um leikfang – „og það var það sem ég var að að reyna að koma til skila sem endaði með því að vera einhliða árás á mann sem ekki var til að verja sig,“ sagði Kári og bætti við að Sigmundur væri að mörgu leyti „dínamískur og glæsilegur ungur maður“ og því engin ástæða til að tala um hann á þennan hátt.

„Þessi skítur er á mína ábyrgð, þessa lotu vann forsætisráðherra tíu núll. Þó forgangsröðin sé ekki rétt hjá honum hvað varðar heilbrigðiskerfið,“sagði Kári sem telur að vel megi vera að þetta atvik lendi á löngum lista yfir það sem hann skammast sín fyrir. „Mér finnst þetta fyrst og fremst leiðinlegt. Það er fyrir fyrir neðan allar hellur að draga það niður á þetta plan að tala um líkamslag.“


Tengdar fréttir

Kári vill að ríkissjóður borgi allan kostnaðinn

Kári Stefánsson segir að sú hugmynd að menn þurfi að draga upp kreditkortið sitt á slysavarðsstofu sé ósmekkleg og ljót. Hann vill að ríkið standi undir öllum kostnaði við heilbrigðisþjónustu landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×