Innlent

Þingmenn frá öllum flokkum vilja rannsókn á súrnun sjávar

Svavar Hávarðsson skrifar
Vísindamenn segja að Ísland geti vænst þungra högga vegna súrnunar sjávar.
Vísindamenn segja að Ísland geti vænst þungra högga vegna súrnunar sjávar. fréttablaðið/valli
Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði í vikunni fram þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun gegn súrnun sjávar á norðurslóðum. Að baki tillögunni eru 23 þingmenn allra flokka á þingi. Fela skuli ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem rannsaki hvaða áhrif loftslagsbreytingar hafa á lífríki hafsins í kringum Ísland og til hvaða aðgerða þurfi að grípa til að sporna við þeim.

Í flutningsræðu sinni gerði Elín að umtalsefni hversu mjög málið er aðkallandi fyrir Ísland, en að mati margra vísindamanna er Ísland á versta mögulega stað þegar súrnun sjávar er annars vegar og mjög litlar rannsóknir fara fram hérlendis á afleiðingum hennar.

En Elín hóf ræðu sína á því að furða sig á vinnubrögðum þingsins í ljósi þess hversu mikið þjóðin á undir í þessu máli og þess víðtæka stuðnings sem þingsályktunartillagan nýtur. Tillagan hafi verið lögð fram á fyrstu dögum þingsins í haust en komist fyrst á dagskrá þegar nokkrir dagar eru liðnir af febrúar.

Elín sagði að það væri ekki „Alþingi til framdráttar að mál sem þingmenn flytja fái svo lítið svigrúm í dagskrá þingsins, því ég tel að þessi mál séu oft og tíðum mjög mikilvæg. Þetta tiltekna mál er mál sem ég hefði talið að þyldi ekki mikla bið, en engu að síður líður svona langur tími frá því við leggjum málið fram [...] og þar til málið kemst á dagskrá.“

Málið var afgreitt til umhverfis- og samgöngunefndar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×