Erlent

Páfinn dregur trú Trump í efa

Samúel Karl Ólason skrifar
Páfinn við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó.
Páfinn við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó. Vísir/EPA
Frans páfi segir að hver sá sem vilji byggja vegg á milli Bandaríkjanna og Mexíkó, sé ekki kristinn. Þetta sagði páfinn þegar hann var spurður út í kosningaloforð Donald Trump, en hann hefur sagst ætla að byggja slíkan vegg og vísa um ellefu milljónum ólöglegra innflytjenda aftur til Mexíkó.

Páfinn tók þó fram að hann hefði ekki heyrt ummæli Trump beint, en hann myndi leyfa frambjóðandanum að njóta vafans.

„Einstaklingur sem hugsar eingöngu um að byggja veggi, hvar sem það má vera, og ekki byggja brýr, er ekki kristinn,“ er haft eftir páfanum á vef AP. Fyrr í dag bað páfinn, sem hefur verið á ferðalagi í Mexíkó, fyrir fólki sem hefur dáið á leið til Bandaríkjanna.

Trump hafði gagnrýnt áætlanir páfans um að biðja fyrir áðurnefndu fólki og sagði það sýna að Frans væri illa upplýstur og að stjórnvöld Mexíkó væru að spila með hann. Spurður út í gagnrýni Trump og hvort stjórnvöld Mexíkó væru að spila með hann, sagðist páfinn ekki vera viss.

„Ég læt ykku, fólkið, um að dæma það.“

Frambjóðandinn Ted Cruz hefur einnig sagst vera tilbúinn til að byggja vegg á milli landanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×