Innlent

Endurnýjun kurlvallanna er ekki forgangsmál

Þórdís Valsdóttir skrifar
Litlum gúmmíkúlum er dreift yfir gervigrasvelli til að gefa þeim mýkri áferð.
Litlum gúmmíkúlum er dreift yfir gervigrasvelli til að gefa þeim mýkri áferð. Vísir/Anton Brink
Samkvæmt nýrri áætlun meirihluta borgarstjórnar er endurnýjun gervigrasvalla þar sem notað er dekkjakurl ekki forgangsmál.

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi gagnrýnir þessa áætlun og forgangsröðun meirihlutans. Dekkjakurlið, sem um er að ræða, er litlar gúmmíkúlur sem dreift er yfir völlinn til að gefa honum mýkri áferð.

Á Alþingi liggur fyrir þingsályktunartillaga allra flokka um bann við notkun dekkjakurls og að mótuð verði áætlun um að skipta gúmmíkurli úr dekkjum út fyrir hættuminni efni fyrir árslok 2016.

Mikið hefur verið fjallað um skaðsemi dekkjakurls sem notað er á völlunum og hvatti Læknafélag Íslands til þess árið 2010 að notkun kurlsins á íþrótta- og leiksvæðum yrði hætt.

Í ályktun frá 2010 sagði Þorsteinn Guðnason hjartalæknir að í dekkja­kurli væri að finna krabbameinsvaldandi efni og önnur eiturefni sem geta verið hættuleg fyrir börn og aðra iðkendur íþrótta á gervigrasvöllum.

Samkvæmt Umhverfisstofnun getur gúmmí sem notað er í dekkja­kurl verið misjafnt en þó sé nánast óhjákvæmilegt að nota ýmis skaðleg efni við framleiðsluna. Við framleiðslu dekkja var auk þess áður notuð olía sem inniheldur efni sem geta meðal annars verið krabbameinsvaldandi. Notkun olíunnar hefur þó verið bönnuð við framleiðslu dekkja. Stofnunin hefur nú kallað eftir upplýsingum frá þremur innflytjendum um efnainnihald dekkjakurls sem notað er á gervigrasvöllum.

Í áætlun Reykjavíkurborgar kemur fram að hafist verður handa við Víkingsvöll á þessu ári. Á næsta ári verður svo völlur KR endurnýjaður, völlur Leiknis árið 2018 og ÍR 2019. Margir foreldrar barna í Reykjavík eru ósáttir við ákvörðun Reykjavíkurborgar um að skipta dekkjakurli á völlum borgarinnar ekki alfarið út á þessu ári. Önnur sveitarfélög hafa þegar brugðist við og hafa hafist handa við endurnýjun gervigrasvalla.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×