Erlent

Obama hyggst tilnefna dómara í næstu viku

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Barack Obama Bandaríkjaforseti hyggst tilnefna nýjan dómara í næstu viku.
Barack Obama Bandaríkjaforseti hyggst tilnefna nýjan dómara í næstu viku. Nordicphotos/AFP
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hyggst tilnefna nýjan hæstaréttardómara í stað Antonin Scalia þegar öldungadeild þingsins snýr aftur til starfa á mánudag. Frá þessu greindi talsmaður forsetaembættisins, Eric Schultz, í gær.

Scalia lést á laugardag, 79 ára að aldri, en hann hafði setið í hæstarétti frá árinu 1986 er hann var skipaður af forsetanum Ronald Reagan. Alls sitja níu dómarar í hæstarétti og eru þeir æviráðnir. Um áratugaskeið hafa fimm þeirra verið íhaldssamir, hliðhollir repúblikönum, en fjórir frjálslyndir, hliðhollir demókrötum.

Mitch McConnell, repúblikani og forseti öldungadeildarinnar, sagði á laugardag að þingið ætti ekki að samþykkja tilnefningu forsetans heldur ætti næsti forseti að skipa dómara, en kosið er um forsetaembættið í nóvember. Um það eru forsetaframbjóðendur repúblikana sammála.

Obama er hins vegar ekki á sama máli. Hann hefur þegar tilnefnt tvo hæstaréttardómara í valdatíð sinni. Soniu Sotomayor árið 2009 og Elenu Kagan ári seinna. Báðar þykja þær frjálslyndar.

Sá sem oftast hefur verið nefndur sem mögulegur arftaki Scalia heitir Srikanth Srinivasan. Sá er 48 ára dómari í áfrýjunardómstól Washington-borgar. Öldungadeild þingsins samþykkti skipun hans árið 2013. Einnig hefur Loretta Lynch dómsmálaráðherra verið nefnd sem og áfrýjunardómstólsdómarinn Jane Kelly, sem þingið samþykkti einróma árið 2013. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×