Þetta sagði Philip Hammond, utanríkisráðherra Breta, í viðtali í dag en eins og greint hefur verið frá er stefnt að því að ná vopnahléi í Sýrlandi í næstu viku.
Ástandið í landinu versnar með hverjum deginum. Rússar, sem styðja Assad Sýrlandsforseta, hafa ekki látið af loftárásum sínum þrátt fyrir harða gagnrýni á þær og þá eru bæði Tyrkir og Sádar að íhuga að senda hersveitir inn í Sýrland.
Undir Rússum komið hvort Assad verði áfram við völd eða ekki
Þeir styðja uppreisnarhópa gegn Assad forseta en hryðjuverkasamtökin ISIS hafa einnig hreiðrað um sig víða í Sýrlandi og eins og kunnugt er er ríkjum heims mikið í mun að brjóta þau á bak aftur. Það er hins vegar mat margra að það sé ekki hægt nema að koma Assad fyrst úr forsetastólnum.

„Þetta veltur allt á því hvort að Rússar séu tilbúnir til þess að beita áhrifum sínum svo að Assad víki. Það er nákvæmlega sama staða og var uppi fyrir ári síðan,“ segir Hammond.
11 milljónir Sýrlendinga á flótta
Vopnahléið í Sýrlandi sem nokkur af stórveldum heims, þar á meðal Bretland, Bandaríkin og Rússland, komu sér saman um fyrir helgi var ekki samþykkt í samráði við Assad. Samkomulagið felur ekki aðeins í sér að reynt verði að koma á vopnahléi heldur einnig að hjálpargögnum verði komið til bágstaddra í Sýrlandi.
Stríðið í landinu hefur kostað meira en 250 þúsund manns lífið og 11 milljónir Sýrlendinga hafa flúið heimili sín, þar af hafa fjórar milljónir flúið úr landi.