Erlent

Forsætisráðherra Rússlands segir nýtt kalt stríð skollið á

Birta Björnsdóttir skrifar
Dmitri Medvedev, forsætisráðherra Rússlands.
Dmitri Medvedev, forsætisráðherra Rússlands. Vísir/AFP
Fulltrúar Bandaríkjanna, Rússlands, Evrópusambandsins, Sameinuðu þjóðanna, Arabandalagsins og fleiri undirrituðu í gær samkomulag væntanlegt vopnahlé í Sýrlandi.

Þó er óhætt að fullyrða að ekki ríki fullkomin sátt milli samningsaðila um hvernig stuðla megi að friði í Sýrlandi og spennan magnast á milli Rússlands annars vegar og vesturveldanna hins vegar.

Svo mjög að Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, sagði í dag nýtt kalt stríð skollið á.

„Á er skollið nýtt kalt stríð. Næstum daglega þurfum við Rússar að sitja undir ásökunum að vera ógn við NATÓ, Evrópu, Ameríku og önnur lönd,“ sagði Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, áöryggisráðstefnu í Þýskalandi fyrr í dag.

Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, er einn þeirra sem biðlar til rússneskra yfirvalda að hætta loftárásum í Sýrlandi, þær komi í veg fyrir allar friðarumleitanir. Undir það tekur John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Áður höfðu uppreisnarhópar í Sýrlandi fullyrt að þeir muni ekki leggja niður vopn því þeir hafi enga trú á að Rússar láti af loftárásum til stuðnings Assad, forseta landsins.

Medvedev tekur í sama streng og Assad forseti gerði í gær, þegar þeir leggja áherslu á að friðarsamkomulagið nái ekki til baráttunnar við hryðjuverkamenn í Sýrlandi. Óbreyttir borgarar séu aldrei skotmörkin.

Átökin í Sýrlandi hafa kostað meira en 250 þúsund manns lífið og 11 milljónir Sýrlendinga hafa flúið heimili sín, þar af hafa fjórar milljónir flúið úr landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×