Fótbolti

Eriksson: Styttist í að leikmenn eins og Messi og Ronaldo fari til Kína

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eriksson og lærisveinar hans í Shanghai SIPG enduðu í 2. sæti kínversku ofurdeildarinnar í fyrra.
Eriksson og lærisveinar hans í Shanghai SIPG enduðu í 2. sæti kínversku ofurdeildarinnar í fyrra. vísir/getty
Sven Göran Eriksson, fyrrverandi þjálfari enska landsliðsins, segir að stærstu fótboltastjörnur heimsins eigi einn daginn eftir að spila í Kína.

Kínversku liðin hafa verið stórtæk í leikmannakaupum upp á síðkastið en meðal leikmanna sem hafa farið austur á bóginn nýlega má nefna Brasilíumennina Ramires, Alex Teixeira og Jackson Martínez.

Eriksson, sem þjálfar Shanghai SIPG í Kína, segir að enn stærri stjörnur eigi eftir að fara til landsins í framtíðinni.

„Það er líklega ekki svo langt í að leikmenn á borð við Lionel Messi, Cristiano Ronaldo og Wayne Rooney muni fara til kínverskra stórliða,“ sagði Eriksson í samtali við Expressen. Svíinn segir einnig að það væri frábært fyrir fótboltann í Kína ef landi hans, Zlatan Ibrahimovic, kæmi þangað.

Eriksson segir að leikmannakaup kínversku liðanna að undanförnu séu bara byrjunin og fótboltinn í Kína muni eflast á næstu árum.

„Stærstu liðin í Kína geta barist við stærstu liðin í Evrópu um leikmenn.

„En það er mikilvægt að hafa það í huga að liðin hér eru ekki bara að einblína á að fá stórstjörnur heldur er miklum fjármunum eytt í unglingastarf þeirra,“ sagði Eriksson og bætti því við að það verði þó einhver bið á því að kínverska landsliðið láti til sín taka.

„Þetta er bara byrjunin. Kína verður stór fótboltaþjóð. Það gerist fyrst hjá félagsliðunum. Við þurfum kannski að bíða í áratug eftir að kínverska landsliðið verði komið í fremstu röð. Áhuginn er gríðarlega mikill og vex með hverjum degi.“


Tengdar fréttir

Ramires farinn til Kína

Sama dag og Jiangsu Suning missti Viðar Örn Kjartansson opnaði félagið veskið og keypti Brasilíumanninn Ramires frá Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×