Chris Christie, ríkisstjóri New Jersey og fyrrum forsetaframbjóðandi repúblikana, hefur lýst yfir stuðningi við Donald Trump. Cristie dró sig úr baráttunni um Hvíta húsið fyrr í þessum mánuði vegna lítils stuðnings í forvali og skoðanakönnunum.
„Ég er ánægður að vera nú í liði með Trump og hlakka til að vinna með honum,“ sagði Cristie á blaðamannafundi. Hann bætti því við að Trump væri besta von flokksins til að ná Hvíta húsinu. Þetta kemur fram á BBC.
Að sögn Cristie leikur enginn vafi á því að Trump muni enda sem forseti og halda Hillary Clinton, öðrum tveggja kandídata demókrata, frá embættinu. Að mati ríkisstjórans á auðkýfingurinn Trump betri möguleika á sigri heldur en öldungadeildarþingmennirnir Ted Cruz og Marco Rubio.
Stuðningsyfirlýsing Cristie er talin hafa það í för með sér að Trump geti nú bent á að hann hafi hluta kjarnafylgis flokksins að baki sér en ekki aðeins jaðarfólk innan hans.
