Innlent

Nýja Bombardier-vélin væntanleg um þrjúleytið

Kristján Már Unnarsson skrifar
Grafísk mynd af Bombardier Q400 í litum Flugfélags Íslands.
Grafísk mynd af Bombardier Q400 í litum Flugfélags Íslands.
Fyrsta Bombardier Q400-vél Flugfélags Íslands, TF-FXI, er nú á leið til landsins og er áætlað að hún lendi á Reykjavíkurflugvelli laust eftir klukkan þrjú. Koma hennar þýðir að gömlu Fokkerarnir víkja á næstu vikum, en þeir hafa verið burðarvélar innanlandsflugsins í meira en hálfa öld. 

Þessi fyrsta Q400 vél lagði af stað frá Englandi laust fyrir hádegi og er áætlað að hún lendi á Reykjavíkurflugvelli klukkan 15:15. Gert er ráð fyrir að hún fljúgi áður hring yfir borginni og taki jafnframt lágflug yfir flugvellinum. Fylgjast má með flugi hennar til Íslands á Flightradar24. 

Koma þessarar fyrstu Bombardier-vélar Flugfélagsins markar tímamót í innanlandsfluginu. Ekki aðeins vegna þess að Fokkerarnir eru að kveðja heldur verða nýju vélarnar þær langstærstu og hraðfleygustu sem notaðar hafa verið í reglubundnu áætlunarflugi innanlands, taka 74 farþega og fljúga á yfir 600 kílómetra hraða.

Stærð þeirra og hraði gerir Flugfélaginu kleift að fækka ferðum til Akureyrar og Egilsstaða, en ná sama farþegafjölda, en jafnframt að víkka út millilandaflug sitt og er áætlað að bæta við Aberdeen í Skotlandi í mars og Syðri-Straumfirði á Grænlandi í júní.

Alls verða Q-400 flugvélarnar þrjár og er gert ráð fyrir að fyrsta vélin hefji áætlunarflug á innanlandsleiðum í næstu viku. Hinar tvær eru svo væntanlegar með vorinu og samhliða því munu Fokkerarnir hverfa úr landi.


Tengdar fréttir

Hefja flug til Aberdeen

Icelandair fer í samstarf við Flugfélag Íslands um áætlunarflug til Skotlands

Helmingi stærri vél leysir af Fokkerinn

Hálfrar aldar þjónustu Fokkeranna við landsmenn lýkur senn. Flugfélag Íslands hefur ákveðið að skipta þeim út fyrir helmingi stærri vélar, Bombardier Q400, sem taka 74 farþega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×