Innlent

Akademían er æf vegna orða Sigmundar Davíðs

Jakob Bjarnar skrifar
Sigmundur Davíð er ekki hátt skrifaður innan háskólasamfélagsins þessa stundina, nema síður sé.
Sigmundur Davíð er ekki hátt skrifaður innan háskólasamfélagsins þessa stundina, nema síður sé.
„Þetta er svo yfirgengilegt að það er vart annað hægt en telja dagana til loka kjörtímabilsins,“ segir Gylfi Magnússon dósent í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, á Facebooksíðu sinni.

Tilefnið eru orð Sigmundur Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra þess efnis að hætt sé við því að ákvörðun HÍ um að leggja af nám á Laugarvatni muni „gera út af við sameinginar eða aukið samstarf HÍ við menntastofnanir á landsbyggðinni. Þetta mun væntanlega kalla á að fjárveitingum verður í auknum mæli beint til skóla á landsbyggðinni á þeirra eigin forsendum.“

Þessi orð féllu um helgina og hafa menntamenn innan akademíunnar og utan, prófessorar og doktorar sem alla jafna gæta orða sinna geta ekki leynt því hversu mjög þessi orð Sigmundar Davíðs fara fyrir brjóstið á þeim.

Fletti upp orðinu popúlisti í slangurorðabók

Flestir túlka þessi orð Sigmundar Davíðs sem hreinar og klárar hótanir. Meðal þeirra er Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, á Fb-síðu nafna síns:

„Skrítið með svona, hefði ekki verið nær að forsætisráðherra hefði haft forgöngu um að veita einhverju fé til þess að hægt væri að reka þessa einingu? Bæta síðan við styrkjum til að nemendur geti verið á heimavist o.s.frv. fremur en koma með svona skrýtnar hótanir?“

Jón Atli Benediktsson rektor hefur svarað ummælum forsætisráðherra með grein sem Vísir birti og fjallaði um. En, menn innan akademíunnar, sem alla jafna eru orðvarir, spara sig hvergi. Þannig segir doktor Magni Þór Pálsson, enn af síðu Gylfa Magnússonar: „Fletti upp á orðinu „popúlisti“ í Slangurorðabókinni rétt í þessu. Þar var ekkert nema þessi mynd.“ Og Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur segir einfaldlega: „Hrifla endurfædd!“

Minnir á stjórnarfar í alræðisríkjum

Menn innan háskólasamfélagsins telja sem sagt hér um ákaflega alvarlegar yfirlýsingar að ræða.

Eiríkur Rögnvaldsson er prófessor í íslenskri málfræði, og honum er ekki skemmt. Hann segist, á Facebooksíðu sinni, skilja vel að skiptar skoðanir séu um flutning náms frá Laugarvatni til Reykjavíkur. „En í lögum um opinbera háskóla segir: „Háskóli er sjálfstæð menntastofnun“ og „Stjórn háskóla er falin háskólaráði og rektor. Háskólaráð markar heildarstefnu í kennslu og rannsóknum og mótar skipulag háskóla“. Það er alvarlegt mál að hóta skertum fjárveitingum vegna einstakra ákvarðana háskólaráðs. Það minnir á stjórnarfar í alræðisríkjum.“

Magnús Karl Magnússon er prófessor í læknadeild og hann er einn margra sem fordæmir orð Sigmundar Davíðs; segir framkomu af þessu tagi hreinlega ekki ganga upp í lýðræðissamfélagi:

„Forsætisráðherra er formaður Vísinda- og tækniráðs sem setur stefnu í vísindamálum þjóðarinnar. Nú hótar hann að svelta enn frekar háskóla á höfuðborgarsvæðinu þegar teknar eru rökstuddar ákvarðanir sem eru ekki ráðherranum að skapi. Slíkt gengur ekki í lýðræðissamfélagi.“

Þetta eru aðeins nokkur dæmi um orð sem hafa fallið meðal háskólafólks, þau eru talsvert fleiri þannig að víst má telja að forsætisráðherra sé ekki ofarlega skrifaður innan akademíunnar um þessar mundir.


Tengdar fréttir

Sóknarfæri í íþrótta- og heilsufræði

"Málefni íþrótta- og heilsufræðinnar hafa verið til ítarlegrar skoðunar innan Háskóla Íslands undanfarin misseri því lengi hefur verið ljóst að gera þyrfti breytingar á starfseminni vegna minnkandi aðsóknar í námið á Laugarvatni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×