Fótbolti

Emil í tapliði Udinese sem klikkaði á víti á 90. mínútu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Emil Hallfreðsson í leik með Udinese.
Emil Hallfreðsson í leik með Udinese. vísir/getty
Emil Hallfreðsson og félagar í Udinese fóru heldur betur illa að ráði sínu gegn Genoa í ítölsku A-deildinni í fótbolta í dag.

Udinese kastaði frá sér 1-0 forystu og tapaði, 2-1, en liðið brenndi einnig af vítaspyrnu á 90. mínútu sem hefði bjargað stigi fyrir gestina.

Ali Adnan kom Udinese yfir á 33. mínútu en Alessio Cerci jafnaði metin úr vítaspyrnu fyrir Genoa á 57. mínútu.

Emil Hallfreðsson fékk gult spjald á 63. mínútu og var tekinn af velli fjórum mínútum síðar, en án Emils fékk Udinese á sig annað mark frá Diego Laxalt á 70. mínútu, 2-1.

Antonio Di Natale, dáðasti leikmaður Udinese, fékk gullið tækifæri til að jafna leikinn á 90. mínútu þegar gestirnir fengu vítaspyrnu en hann brenndi af og þar við sat, 2-1 sigur Genoa.

Udinese er nú án sigurs í níu leikjum í röð í deildinni og hefur innbyrt fjögur stig í þessum níu leikjum. Liðið er í 15. sæti með 27 stig, fimm stigum frá fallsvæðinu.

Emil var í byrjunarliði Udinese í þriðja sinn í dag en hefur ekki enn upplifað deildarsigur með liðinu. Hann vann heldur ekki leik með Verona áður en hann var seldur í janúar, en í heildina yfir Emil ekki unnið deildarleik á Ítalíu síðan í maí í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×