Viðskipti innlent

Stefnt að auknum sveigjanleika í innkaupum hins opinbera

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Talið er að hægt sé að spara allt að fjóra milljarða með hagræðingu í innkaupum.
Talið er að hægt sé að spara allt að fjóra milljarða með hagræðingu í innkaupum. vísir/anton brink
Væntanlegt inn á gólf þingsins er frumvarp sem felur í sér heildarskoðun á lögum um opinber innkaup. Markmið frumvarpsins er að einfalda reglur sem nú gilda um málefnið, auka sveigjanleika í framkvæmd innkaupa og gera innkaupin skilvirkari fyrir neytendur. Þetta kemur fram í frétt á vef Fjármálaráðuneytisins.

Verði frumvarpið að lögum eykst sveigjanleiki í innkaupum opinberra kaupenda auk þess sem sameiginleg innkaup stofnanna verða auðvelduð.

Í Kastljósi RÚV í kvöld kom fram að hið opinbera nýtti sér illa, eða ekki, stærð sína til að ná fram hagstæðum kaupum. Hægt væri að spara milljarða með betri innkaupastefnu hjá ýmsum stofnunum.

Umfjöllun Kastljóss var að stórum hluta byggð á vinnu starfshóps sem skipaður var vorið 2014 og lauk störfum í mars í fyrra. Verkefni hans var að greina og bæta vinnubrögð í innkaupum ríkisaðila. Árlegt umfang innkaupa ríkisins nema nú um 140 milljörðum króna en að auki kaupir það vörur og þjónustu fyrir 88 milljarða árlega. Stefnt var að því að ná fram tveggja til fjögurra milljarða hagræðingu.

Skipuð hefur verið verkefnisstjórn sem á að koma á sameiginlegum innkaupum ríkisstofnana með það að markmiði að nýta stærðarhagkvæmni þess sem kaupanda til að ná fram hagræðingu. Gert er ráð fyrir að hún starfi í allt að átján mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×