Viðskipti innlent

Auglýst eftir kaupmönnum og veitingamönnum í mathöll á Hlemmi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá matarmarkaðnum Torvehallerne í Kaupmannahöfn en innblástur fyrir mathöllina á Hlemmi er sóttur til matarmarkaða víðs vegar um heiminn.
Frá matarmarkaðnum Torvehallerne í Kaupmannahöfn en innblástur fyrir mathöllina á Hlemmi er sóttur til matarmarkaða víðs vegar um heiminn. mynd/sjávarklasinn
Opnað hefur verið fyrir umsóknir um rekstur bása í mathöll á Hlemmi sem stefnt er að því að opna í haust. Auglýst er eftir 10 rekstraraðilum sem selja ferska matvöru og sérvöru, eins og til dæmis fisk, kjöt og grænmeti eða tilbúnar veitingar og drykki.

Stærð básanna verður frá 7 upp í 25 fermetra og verða sæti fyrir um 80 gesti. Stefnt er að því að hafa mathöllina opna alla daga vikunnar. Í tilkynningu frá Sjávarklasanum sem unnið hefur að þróun mathallarinnar kemur fram að leigusamningar verði gerðir til eins til þriggja ára í senn og verður leiguverð í takt við markaðsverð í miðbænum.

„Hlemmur sækir innblástur í evrópskar mathallir og matarmarkaði þar sem allt snýst um að versla við einhvern sem hefur metnað og þekkingu á vörunni og leggur sig fram við að nota besta mögulega hráefni. Þú sem gestur mathallarinnar ert með þá tilfinningu að þú sért að versla við heiðarlegan kaupmann sem hefur ástríðu fyrir vörunni,“ segir Bjarki Vigfússon, einn forsvarsmanna Hlemms – Mathallar.

Umsóknarfrestur er til 21. mars en allar nánari upplýsingar um umsóknarferlið má nálgast á hlemmurmatholl.is.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×