Innlent

Fleiri stjórnendur ÍSAL fá að ganga í störfin

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Frá Straumsvík
Frá Straumsvík Vísir/Vilhelm
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur samþykkt beiðni Rio Tinto Alcan á Íslandi um að fjórir yfirmenn til viðbótar fái að ganga í störf hafnarverkamanna á meðan útflutningsbanni stendur. Hann hafði í síðustu viku úrskurðað að fimmtán yfirmenn mættu ganga í þessi störf.

„Ástæðan er sú að við höfðum bara haft tvo staðgengla framkvæmdastjóra í upphaflegu lögbannsbeiðninni, en staðgenglarnir eru fjórir til viðbótar þannig að við bættum þeim við,“ segir Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto.

Sýslumaður setti í síðustu viku lögbann á hluta aðgerða Verkalýðsfélagsins Hlífar þar sem verkfallsverðir reyndu að koma í veg fyrir að stjórnendur næðu að skipa út áli frá Straumsvíkurhöfn. Úrskurðað var að fimmtán stjórnendur mættu skipa út áli.

Gylfi Ingvarsson, talsmaður starfsmanna álversins í Straumsvík, furðar sig á vinnubrögðum sýslumanns. „Okkur finnst það mjög sérstakt þegar búið er að úrskurða og búið að tilgreina fjöldann og einstaklingana af hálfu ÍSAL, og þeir búnir að samþykkja það, að það skuli vera hægt að koma með einhverja viðbót. Vægast sagt einkennileg vinnubrögð af hálfu fulltrúa sýslumanns,“ segir hann.

Hann segir fátt benda til þess að lausn sé í sjónmáli og því komi vel til greina að grípa til frekari aðgerða. „Það verður skoðað hvernig þetta gengur í dag og á morgun. Nú bítur þetta svolítið.“

Starfsmenn í verkfalli unnu að því að afferma flutningaskip sem lagðist að Straumsvíkurhöfn í morgun. Stjórnendur taka svo við útskipun síðar í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×