Viðskipti innlent

Seðlabankastjóri vill endurskoða meðferð efnahagsbrotamála

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri vill að meðferð efnahagsbrotamála verði tekin til endurskoðunar. Þetta sagði hann í sjónvarpsþættinum Eyjunni á Stöð 2 á sunnudag. 



„Ég held að efnahagsbrotamál á Íslandi, á heildina, það þarf að taka þetta kerfi til skoðunar. Það er ekki nógu öflugt, það er ekki nógu hraðvirkt, þetta eru flókin mál, það þarf sérfræðiþekkingu og þetta eru erfið mál,“ sagði hann.



Seðlabankinn hefur sætt gagnrýni fyrir aðkomu sína að nokkrum málum er varða gjaldeyrisreglur en nýlega voru á þriðja tug mála felld niður þar sem ekki er hægt að sýna fram á formlega staðfestingu viðskiptaráðherra á gjaldeyrisreglum bankans.




Þá hefur Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, einnig gagnrýnt bankann fyrir mál er tengjast útgerðinni. Már benti á í viðtalinu að málið hefði setið hjá sérstöku saksóknara, sem fór með efnahagsbrotamál þar til embætti héraðssaksóknara varð til um áramót, í tvö ár. Það hefði verið mun styttra til meðferðar hjá bankanum.



„Mér finnst stundum fjallað um þessi mál eins og það hafi verið einhver ásetningur einhvers að sakfella saklausa menn. Það er bara ekki þannig. Og ef þeir eru saklausir þá er það fínt. Nú ef þeir eru samt sekir en það eru ekki til refsiheimildir, þá er það bara líka þannig,“ sagði hann.



„Það er ekki mál okkar. Okkar mál er að sjá til þess að víggirðingin bresti ekki og hún brast ekki.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×