Breiðablik lyfti sér upp í 2. sæti riðils 2 í Lengjubikar karla í fótbolta með 1-2 sigri á Fjarðabyggð fyrir austan í dag.
Blikar eru nú komnir með sex stig eftir þrjá leiki, einu minna en topplið Fylkis. Fjarðabyggð er hins vegar án stiga í botnsæti riðilsins.
Höskuldur Gunnlaugsson kom Breiðabliki yfir á 43. mínútu og 10 mínútum seinna jók trínidadíski framherjinn Jonathan Glenn muninn í 0-2.
Oumaro Coulibaly minnkaði muninn í 1-2 á 61. mínútu en nær komust leikmenn Fjarðabyggðar ekki. Lokatölur 1-2, Breiðabliki í vil.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar af úrslit.net.
