Viðskipti innlent

Bankinn segist hafa fengið gjaldeyrisreglur samþykktar þó bréfið finnist ekki

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Seðlabankinn lítur svo á að viðskiptaráðherra hafi formlega samþykkt gjaldeyrisreglur bankans sem settar voru árið 2008.Bréf þar sem formlegt samþykki á að hafa verið veitt finnst ekki.

RÚV greindi frá því í gær að á þriðja tug mála sem tengjast meintum brotum á þessum reglum féllu um sjálf sig vegna þess að ekki finnist formlega samþykkt viðskiptaráðherra á reglunum.



Í skriflegu svari bankans við fyrirspurn fréttastofu segir að allir sem fjallað hafa um málið, bæði fjölmiðlar og umboðsmaður Alþingis hafi ekki hrakið að viðskiptaráðherra hafi gefið formlegt samþykki fyrir reglunum. 




Bankinn segir að í yfirliti sem ráðuneytið sendi umboðsmanni vegna umfjöllunar hans um málið 2011 hafi komið fram að reglurnar hefðu verið samþykktar 12. desember árið 2008 með formlegum hætti. Það bréf liggur hins vegar ekki fyrir.



„Það síðan hvort samþykkið finnist eða ekki á enn eftir að koma í ljós en í því sambandi verður að hafa í huga það, að samkvæmt orðanna hljóðan þá voru ekki gerðar neinar formkröfur til þessa samþykkis ráðherra í ákvæði til bráðabirgða í lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, sem var grundvöllur umræddra reglna,“ segir í svari frá bankanum.

Fram kemur í svarinu að ráðuneytið hafi staðfest í bréfi til umboðsmanns Alþingis að reglurnar hefðu verið „formlega samþykktar af þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra með bréfi, dags. 12. desember 2008“. 

Daginn áður hafði bankinn óskað eftir samþykki ráðherra en þann 12. hafði ráðuneytið gert nokkrar athugasemdir sem bankinn segist svo hafa brugðist við og fengið formlegt samþykki fyrir reglunum. Þær voru svo birtar 15. desember 2008.




„Allt þetta stendur óhrakið og því telur Seðlabankinn að ekki sé þörf frekari viðbragða af sinni hálfu vegna málsins, spurninga um það verði að beina til annarra sem að málinu hafa komið,“ segir  að lokum í svari bankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×