Lífið

Langar að verða stórmeistari í skák

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Óskar Vískingur er á ellefta ári. Mamma hans kenndi honum að tefla en hann kominn fram úr henni fyrir löngu.
Óskar Vískingur er á ellefta ári. Mamma hans kenndi honum að tefla en hann kominn fram úr henni fyrir löngu. Vísir/Stefán
Hvernig tilfinning er að vera Norðurlandameistari í skólaskák, Óskar Víkingur?

Það er algjör snilld. Það var mikil spenna allt mótið og þá líður manni vel þegar maður er búinn að tryggja sigurinn.

Hvar var keppnin haldin?

Í Kosta í Svíþjóð sem er smábær í Smálöndunum. Við kepptum á hóteli sem heitir Kosta Boda Art Hótel og er rosalega flott en gistum í kofum dálítið frá skákstað. Flugum til Kaupmannahafnar og tókum lestina yfir til Svíþjóðar. Það kepptu tíu krakkar frá Íslandi, svo voru foreldrar og þjálfarar líka með svo að hópurinn var alls 17 manns.

Áttir þú von á sigri?

Í fyrra lenti ég í öðru sæti og þá var ég á yngra ári. Núna var ég stigahæstur keppenda í mínum flokki og vissi að ég ætti ágætis möguleika en maður er aldrei búinn að vinna fyrirfram.

Hvernig varðst þú svona góður?

Ég lærði mannganginn fimm ára, byrjaði að æfa sex ára og var líka sex ára þegar ég keppti mína fyrstu kappskák. Síðan fór ég að æfa mig meira, bæði á netinu og á skákæfingum og tók þátt í öllum skákmótum. Ég hef tekið þátt í Evrópumeistara- og heimsmeistaramóti því það er mikilvægt að fá keppnisreynslu. Ég hef verið að æfa hjá stórmeisturunum Helga Ólafssyni og Hjörvari Steini Grétarssyni.

Er skákáhugi í skólanum þínum?

Já, ég er í Ölduselsskóla og þar eru æfingar einu sinni í viku bæði fyrir byrjendur og lengra komna. Skólaliðið er líka frekar sterkt. Björn Ívar Karlsson sér um æfingarnar og hann er algjör snillingur.

Eru foreldrar þínir skákfólk?

Mamma kenndi mér skák en hún er ekkert rosalega góð, ég fór að vinna hana fyrir löngu. Pabbi kann skák en teflir ekkert sjálfur.

Áttu fleiri áhugamál en skákina?

Já, ég æfi körfubolta og líka fótbolta á sumrin með ÍR.

Hvað langar þig að verða þegar þú verður stór?

Stórmeistari í skák.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×