Innlent

Ung knatt­spyrnu­kona rekur öndunar­færa­sjúk­dóm til dekkjakurls

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ung knattspyrnukona í Fram telur að bein tengsl séu á milli öndunarfærasjúkdóms sem hún glímir við og þeirri staðreynd að hún hefur spilað undanfarin 5 ár á velli sem þakinn er heilsuspillandi dekkjakurli. Hér áður fyrr var hún alltaf með sterk og heilbrigð lungu.

Gúmmíkurl úr úrgangsdekkjum hefur um árabil verið notað sem uppfyllingarefni á gervigras- og sparkvöllum hér á landi þótt sýnt hafi verið fram á að kurlið sé heilsuspillandi. Kurlið er meðal annars notað á gervigrasvelli Fram í Safamýri.

Fjóla Sigurðardóttir var fimmtán ára þegar hún hóf að spila með meistaraflokki kvenna hjá Fram árið 2011 en hafði fram að því verið með afar sterk lungu og ekki fundið fyrir neinum öndunarfæraerfiðleikum. Eftir að að hafa spilað í tvö ár á heilsuspillandi dekkjakurlinu í Safamýri fór hún að kenna sér meins.

„Árið 2013 þurfti ég að leita til læknis og mér leið eins og ég væri að fá astma. Þoli mínu hrakaði þrátt fyrir miklar æfingar. Það hefði átt að verða betra vegna æfinganna en það varð bara verra,“ segir Fjóla. Hún tengir verra þol og önundarerfiðleika við dekkjakurlið. Hún þarf í dag að nota púst svipað og astmasjúklingar nota. 

„Ég hef aldrei verið með neina öndunarerfiðleika, bara aldrei. Þangað til ég byrjaði að æfa hérna árið 2011.“

Í skýrslu Umhverfisstofnunar Danmerkur frá 2008 kemur fram að notkun hjólbarðakurls á gervisgrasvöllum auki líkur á myndun svifriks á völlunum og að það geti stuðlað að astma til lengri tíma er litið.

Í dag eru 21 gervigras og sparkvellir í Reykjavík með heilsuspillandi dekkjarkurli. Sex hjá íþróttafélögum, eins og völlurinn í Safamýri, og 15 á skólalóðum. Á Facebooksíðunni Nýjan völl án tafar. Allt dekkjakurl til grafar hafa fimmtán hundruð áhyggjufullir foreldrar skrifað undir áskorun til borgarinnar um að skipta út gervigrasvöllum þar sem notað hefur verið kurl úr úrgangsdekkjum.

Þegar fréttamaður og tökumaður Stöðvar 2 voru á gervigrasvellinum í Safamýri í dag var lyktin við netmöskvana í öðru markinu ekki ósvipuð því sem finnst á dekkjaverkstæðum eða í menguðum erlendum stórborgum. Ekki það sem maður finnur venjulega í Reykjavík.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×