Innlent

Borgarstjóri tilbúinn að vinna að því að fá Listaháskólann í höfuðstöðvar Landsbankans

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
„Listaháskólinn mynd hæfa þessum sögufrægu húsum vel,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
„Listaháskólinn mynd hæfa þessum sögufrægu húsum vel,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Vísir/Vilhelm
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að það sé frábær hugmynd að Listaháskóli Íslands taki yfir höfuðstöðvar Landsbankans við Austurstræti. „Því það er starfsemi sem myndi smita lífi og fjöri um stræti og torg,“ skrifar hann um málið á Facebook.

„Listaháskólinn mynd hæfa þessum sögufrægu húsum vel, því höfuðstöðvar Landsbankans er ekki aðeins bankahús heldur hluti af menningararfi okkar þar sem veggmyndir eftir helstu listamenn þjóðarinnar eru hluti af innréttingunum,“ segir hann.

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor skólans, viðraði hugmyndina í samtali við RÚV í morgun. Í dag er skólinn á fjórum stöðum í Reykjavík og eru eldri byggingar afleitar, að hennar sögn.

„Ég held að það væri bara dáldið hressilegt að hafa til dæmis þennan skóla í þessari bygginu, steinsnar til dæmis frá Austurvelli og Alþingi. Þetta skapar svona heilbrigt jafnvægi í borgarmyndinni sem nú þegar er orðin töluvert einsleit, til dæmis vegna túrisma,“ sagði hún á Morgunvaktinni á Rás 1.

Dagur segist tilbúinn að til að vinna að framgangi hugmyndarinnar á vettvangi borgarinnar, ef á þarf að halda. Hann segir það beinlínis falleg tilhugsun að þar sem nú sé banki og fjármálastarfsemi komi Listaháskóli fullur af ungu skapandi fólki, menntun og menningu á þessum stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×