Lífið

Með Stúdenta­kjall­aranum kom mikil tónlistar­flóra

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Margrét Arnardóttir harmonikkuleikari spilar á háskóladeginum 5. mars næstkomandi.
Margrét Arnardóttir harmonikkuleikari spilar á háskóladeginum 5. mars næstkomandi. Vísir/Stefán
„Þetta er ótrúlega gaman og mikil hátíð fyrir bæði nemendur og starfsfólk skólanna. Það sem gerir þennan dag skemmtilegan er að það er hægt að skoða allt sem aðrir hafa upp á að bjóða. Svo verður ýmislegt skemmtilegt á dagskrá, til dæmis sýningar hjá Sprengjugenginu, legó-námskeið, námskeið í forritun fyrir börn, salsa­dans og tónleikar,“ segir Margrét Arnardóttir harmóníkuspilari en hún er að taka þátt í dagskrá háskóladagsins í níunda skipti og finnst það alltaf jafn gaman.

Háskóladagurinn veitir framtíðarnemendum einstakt tækifæri til að kynnast því sem í boði er svo auðveldara sé að taka upplýsta ákvörðun um hvaða nám hentar hverjum og einum.

„Ég hef tekið þátt í háskóladeginum frá því 2007 þegar ég stofnaði nemandafélagið FLOG. Árið 2009 var ég fengin til að spila á harmóníku, og það er óhætt að segja að eftir það fór boltinn að rúlla. Það hefur myndast einhvers konar hefð að fá mig til að spila á þessum frábæra viðburði og hef ég fengið þann heiður að fylgjast með viðburðinum stækka,“ segir Margrét aðspurð um sína aðkomu að háskóladeginum.

Markmið skólanna er að bjóða upp á metnaðarfulla kynningu á öllum mögulegum námsleiðum á Íslandi, sem eru yfir fimm hund­ruð talsins. Dagskráin fer fram í húsakynnum Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Listaháskóla Íslands, Laugarnesvegi 91.

„Ég hvet alla til að mæta, bæði þau sem ekki eru búin að ákveða hvað þau ætla að læra og þau sem langar að kíkja á gamlar slóðir. Margt hefur breyst í Háskóla Íslands, sérstaklega eftir að Háskólatorg kom og síðar Stúdentakjallarinn. Með kjallaranum spratt upp mikil tónlistarflóra en Baltabandið Raki ásamt Húsbandi Stútendakjallarans koma til með að troða upp á háskóladeginum og ég lofa góðri stemningu,“ segir Margrét.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×