Enski boltinn

Liðin í öðru til fjórða sæti töpuðu öll | Úrslit kvöldsins í enska

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsenal menn urðu að sætta sig við svekkjandi tap í kvöld.
Arsenal menn urðu að sætta sig við svekkjandi tap í kvöld. Vísir/Getty
Þetta var gott kvöld fyrir topplið Leicester City og Manchester United því liðin á milli þeirra í töflunni töpuðu öll leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni.

Tottenham átti möguleika á því að komast í toppsætið en tapaði á móti West Ham. Arsenal tapaði sínum leik á heimavelli á móti Swansea City og Manchester City steinlá 3-0 á móti Liverpool á Anfield.

Leicester City er því áfram með þriggja forystu á toppnum eftir þetta ótrúlega kvöld sem sannaði enn á nú hvað þetta tímabil í ensku úrvalsdeildinni ætlar að vera ófyrirsjáanlegt.

Michail Antonio tryggði West Ham 1-0 sigur á Tottenham á Upton Park þegar hann skoraði strax á sjöundu mínútu. Það reyndist vera eina mark leiksins og Tottenham klikkað á gullnu tækifæri á að komast á toppinn.

Gylfi Þór Sigurðsson kom inná sem varamaður í hálfleik og lagði upp sigurmark Swansea á móti Arsenal á Emirates-leikvanginum en Arsenal komst í 1-0 eftir aðeins fimmtán mínútna leik. Ashley Williams skoraði sigurmarkið á 75. mínútu eftir frábæra aukaspyrnu frá Gylfa.

Liverpool hefndi fyrir tapið á móti Manchester City í úrslitaleik deildabikarsins á Wembley um síðustu helgi en City vann þá í vítakeppni. Liverpool vann báða deildarleiki liðanna í vetur og það með markatölunni 7-1. Liverpool fór aftur upp fyrir Chelsea og Evberton með þessum sigri og fór í raun alla leið upp á áttunda sætið.

Svisslendingurinn Xherdan Shaqiri tryggði Stoke 1-0 sigur á Newcastle með marki níu mínútum fyrir leikslok en Stoke er fyrir vikið í sjöunda sæti deildarinnar.

Juan Mata bar fyrirliðaband Manchester United í fyrsta skiptið og þakkaði fyrir það með því að skora sigurmarkið á móti Watford með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu. Manchester United komst þar með upp að hlið nágranna sinna í Manchester City í fjórða sæti deildarinnar.



Úrslit og markaskorarar í ensku úrvalsdeildinni í kvöld:

Arsenal - Swansea    1-2

1-0 Joel Campbell (15.), 1-1 Wayne Routledge (32.), 1-2 Ashley Williams (75.)

Stoke - Newcastle    1-0

1-0 Xherdan Shaqiri (81.)

West Ham - Tottenham     1-0

1-0 Michail Antonio (7.)

Liverpool - Manchester City     3-0

1-0 Adam Lallana (34.), 2-0 James Milner (41.), 3-0 Roberto Firmino (57.),

Manchester United - Watford    1-0

1-0 Juan Mata (83.)


Tengdar fréttir

Tottenham mistókst að komast á toppinn

Tottenham mistókst að skjótast á topp ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, en Tottenham tapaði 1-0 fyrir grönnum sínum í West Ham í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×