Viðskipti innlent

Metnaðarlaus markmið til fjölgunar rafbíla

Íslenskt samfélag gæti sparað gríðarlega fjármuni árlega á að skipta út jarðefnaeldsneyti sem meginorkugjafa í samgöngum hér á landi. NORDICPHOTOS/GETTY
Íslenskt samfélag gæti sparað gríðarlega fjármuni árlega á að skipta út jarðefnaeldsneyti sem meginorkugjafa í samgöngum hér á landi. NORDICPHOTOS/GETTY
Í nýrri raforkuspá Orkustofnunar er gert ráð fyrir að rafbílar verði 14 prósent bílaflota Íslendinga eftir tuttugu ár og sex af hverjum tíu bílum verði rafknúnir árið 2050. Framkvæmdastjóri Vistorku á Akureyri segir þessi markmið metnaðarlaus. „Íslensk þjóð hefur tækifæri til að rafvæða bílaflotann mjög hratt á næstu árum. Hér býr þjóð með gríðarlega mikið magn hreinnar orku og um 85 prósent íbúa á sama blettinum suðvestanlands. Það ætti því að vera hægt að rafvæða bílaflotann hratt. Stjórnvöld geta gert heilmargt til að flýta fyrir þessari þróun hjá okkur,“ segir Guðmundur Haukur Sigurðarson, framkvæmdastjóri Vistorku á Akureyri. Í orkuspá Orkustofnunar er gert ráð fyrir að helmingur nýskráðra fólksbíla árið 2031 verði knúinn raforku og níu af hverjum tíu bifreiðum verði rafmagnsbílar í lok spátímans árið 2050. „Rafbílavæðing verður fyrst raunhæf þegar gott framboð rafmagnsbifreiða verður til staðar og verð samkeppnishæft við bifreiðar knúnar jarðefnaeldsneyti,“ segir í spánni. Þessa spá segir Guðmundur Haukur vera metnaðarlausa. „Hér er um spá að ræða en ekki stefnu stjórnvalda. Ef þetta endurspeglar hins vegar stefnuna þá skortir metnað og markmiðin gætu náðst án þess að stjórnvöld gerðu nokkuð frekar í málunum. Við ættum að geta gert þetta mun hraðar,“ segir Guðmundur. „Innan nokkurra ára verða hleðslustöðvar komnar um allt land og drægi rafmagnsbíla eykst ár frá ári.“ Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í ræðu á ráðstefnu um rafbílavæðingu á Íslandi í nóvember 2014 það vera vilja ríkisstjórnarinnar að tryggja ívilnanir fyrir rafbíla og festa þær í sessi til langs tíma. „Svo ánægjulega vill til að Ísland er í lykilstöðu sem land sem getur framleitt nægt grænt eldsneyti fyrir bílaflota framtíðarinnar,“ sagði Sigmundur Davíð í ræðu sinni. „Stjórnvöld geta hæglega stillt hlutunum upp á þann hátt að rafbílar verði hagstæðari en bensín- og dísilbílar. Þannig væri hægt að hraða orkuskiptunum í samgöngum á Íslandi gríðarlega,“ segir Guðmundur Haukur. sveinn@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×