Lífið

Vegleg verðlaun eru í boði

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Sigurlaug Guðrún er á öðru ári í tölvunarverkfræði í HR.
Sigurlaug Guðrún er á öðru ári í tölvunarverkfræði í HR. Vísir/Vilhelm
„Keppnin er ætluð nemendum í framhaldsskólum sem eru að læra forritun. Hún hefur sjö sinnum verið haldin áður en þátttakendur hafa aldrei verið fleiri en nú, 130 talsins. Þeir eru af báðum kynjum en strákarnir samt mun fleiri en stelpurnar,“ segir Sigurlaug Guðrún Jóhannsdóttir, 22 ára nemi í hugbúnaðarverkfræði í HR. Þar er hún að ljúka öðru ári og stefnir á skiptinám við DTU í Danmörku næsta vetur.

Sigurlaug er líka formaður Systra sem er félag kvenna í tölvunarfræði í HR og var stofnað árið 2013. Núna eru stelpur fjórðungur nemenda í deildinni, Sigurlaug segir þeim hafa fjölgað um helming á fáum árum.

„Heimurinn þarf á konum að halda í þessu fagi, enda eykst þörfin á menntuðu fólki í forritun stöðugt og það væri synd ef helmingur mannkyns íhugaði ekki nám í þeirri grein. Svo eru góð laun í boði og fjölbreytileiki í starfinu.“

Forritunarkeppnin er nú um helgina á vegum tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík og þetta árið fer hún einnig fram á Akureyri. Skyldi Sigurlaug hafa tekið þátt í slíkri keppni á sínum tíma?

„Nei, ég pældi ekkert í því þegar ég var í menntaskóla að fara í þetta nám, því miður. En ég hvet framhaldsskólanema til að taka þátt í keppninni. Við erum með tvær deildir, aðra fyrir byrjendur og hina lengra komna. Vegleg verðlaun eru í boði, vinningsliðinu stendur meðal annars til boða niðurfelling skólagjalda á fyrstu önn við tölvunarfræðideild HR.“

Greinin/fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. mars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×