Viðskipti innlent

Fasteignakaupum fækkar en verðið fer hækkandi

Birgir Olgeirsson skrifar
Sé litið á þróunina frá ágústmánuði 2015 sést að fjölda viðskipta á tímabilinu frá september til janúar hefur stöðugt fækkað.
Sé litið á þróunina frá ágústmánuði 2015 sést að fjölda viðskipta á tímabilinu frá september til janúar hefur stöðugt fækkað. Vísir/Vilhelm
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,4% milli mánaða í febrúar, þar af hækkaði fjölbýli um 0,6% og sérbýli lækkaði um 0,3%, að því er fram kemur í Hagsjá Landsbankans. Síðustu 12 mánuði hefur fjölbýli hækkað um 8,7%, sérbýli um 1,8% og er heildarhækkunin 8,5%. Aðeins virðist því hafa dregið úr stöðugu hækkunarferli húsnæðis sem heldur þó áfram.

Landsbankinn segir verðbólgu hafa verið lága á síðustu misserum og því hafi raunverð fasteigna hækkað umtalsvert. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hafði í febrúar einungis hækkað um 0,7% síðustu 12 mánuði þannig að stærstur hluti hækkana á húsnæði kemur fram sem raunverðshækkun sem er frekar óvenjuleg staða hér á landi.

6.900 kaupsamningum var þinglýst íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2015, sem var 17,5% aukning frá árinu áður. Meðalfjöldi viðskipta á ári síðustu 13 árin var tæplega 6.000 á ári og viðskiptin í fyrra voru þannig um 16% meiri en verið hefur að jafnaði síðustu 13 ár. Sé litið á þróunina frá ágústmánuði 2015 sést að fjölda viðskipta á tímabilinu frá september til janúar hefur stöðugt fækkað.

Landsbankinn segir meginástæðu fyrir hækkun fasteignaverðs koma til af hefðbundnum áhrifaþáttum eins og þróun kaupmáttar, tekna, vaxtastigs af húsnæðislánum og atvinnustigs. Allir þessir þættir eru sagðir stefna í þá átt að ýta undir hækkun fasteignaverðs, t.d. hefur kaupmáttur launa aukist verulega á síðustu misserum. Þá blasi við að eitthvað vantar á að framboð íbúða anni eftirspurn og að greinilega sé þörf á fleiri nýjum íbúðum inn á markaðinn til þess að anna aukinni eftirspurn. Flestir undirliggjandi þættir vísa því í áframhaldandi hækkun fasteignaverðs. Hagfræðideild spáði í nóvember 8% árlegri hækkun fasteignaverðs á árunum 2016-2018.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×