Viðskipti innlent

Kynjakvótar VÍS komu í veg fyrir stjórnarmyndun

Bjarki Ármannsson skrifar
Aðalfundi VÍS hefur verið frestað vegna þess að ómögulegt var að mynda stjórn sem uppfyllti kröfur laga um kynjahlutföll.
Aðalfundi VÍS hefur verið frestað vegna þess að ómögulegt var að mynda stjórn sem uppfyllti kröfur laga um kynjahlutföll. Vísir/E. Ól.
Aðalfundi VÍS, sem hófst fyrr í dag, hefur verið frestað vegna þess að ómögulegt var að mynda stjórn sem uppfyllti kröfur laga um kynjahlutföll.

Frá þessu greinir Viðskiptablaðið. Í framboði til aðalstjórnar félagsins voru sjö manns, þrír menn og fjórar konur, en þeir Guðmundur Þórðarson og Jóhann Halldórsson drógu framboð sitt til baka rétt eftir að fundurinn hófst síðdegis í dag.

Í samþykktum VÍS er kveðið á um að gæta skuli þess að kynjahlutfall í stjórn og varastjórn sé sem jafnast og að hlutfall hvors kyns sé aldrei lægra en fjörutíu prósent. Ljóst er að það var ekki hægt eftir að einn maður og fjórar konur sátu eftir í framboði til fjögurra manna stjórnar.

Samkvæmt Viðskiptablaðinu hefur stjórnarkjöri verið frestað og núverandi stjórn VÍS situr því áfram.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×