Lífið

Miklu betra að vera fullur en dauður

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Félagarnir Andrés Björnsson og Ómar Ingimarsson opna Drunk Rabbit Irish Pub í Austurstræti.
Félagarnir Andrés Björnsson og Ómar Ingimarsson opna Drunk Rabbit Irish Pub í Austurstræti. vísir/Ernir
Við opnum í dag á sjálfan St Patrick’s day, sem er tilvalið þar sem þetta er írskur pöbb og stemningin á staðnum í anda Írlands. Á föstudaginn verðum við svo með formlegt opnunarpartí, þar sem við ætlum að gleðjast með vinum og fjölskyldu og fagna opnun Drunk Rabbit en við höfum unnið hér dag og nótt í nær fjóra mánuði,“ seg­ir Andrés Björns­son, ann­ar eig­andi Drunk Rabbit­ í Aust­ur­stræti.

Þeir félagar Andrés og Ómar Ingimars­son lentu í hörðum deilum vegna nafnsins sem þeir völdu á staðinn í upphafi en létu það ekki á sig fá. Þeir félagar höfðu farið til New York til að kynna sér írska pöbba og sækja sér innblástur varðandi útlit og stemningu fyrir staðinn. Í kjölfar ferðarinnar völdu þeir nafnið Dead Rabbit, en þar sem annar staður ber það nafn fengu þeir ábendingu um að þetta væri ekki við hæfi og ákváðu þeir því að breyta nafni barsins.

„Okkur bárust þær fréttir að eig­endur The Dead Rabbit í New York væru ekki sátt­ir og teldu okkur vera að herma eftir þeim. Í framhaldinu fengum við frekar neikvæða umfjöllun frá öðrum bareigendum í Reykjavík . Eftir talsverðar vangaveltur tókum við þá ákvörðun að breyta nafninu í Drunk Rabbit Irish Pub, enda er miklu betra að vera fullur heldur en dauður,“ segir Andrés léttur í bragði.

Á staðnum verður boðið upp á fjölbreyttan kokteilaseðil en þeir félagar hafa fengið í lið við sig reynda barþjóna sem hafa hannað kokteilaseðil þar sem er að finna yfir tuttugu mismundi kokteila. Auk þess hyggjast þeir bjóða upp fjölbreytt úrval bjórtegunda. Allt á staðnum eru upprunalegar antikvörur frá Írlandi og óhætt að segja að ásýnd staðarins beri mann hálfa leið til Írlands.

„Ég hannaði staðinn ásamt Ómari og lagði mikið upp úr því að lúkkið á staðnum yrði í anda írskra pöbba, ég er með mikið af flottum antikhúsgögnum frá Írlandi, heildarlúkkið á staðnum er svokallað „old fashion“. Við lögðum mikla áherslu á það að staðurinn væri fyrir alla, bæði skemmtilega stelpnahópa sem vilja setjast niður og fá sér flotta viskí­kokteil­a að írsk­um sið og fyrir þá sem vilja kíkja með félögunum eftir vinnu og horfa jafnvel á skemmtilega íþróttaviðburði en við ætlum að sýna alla stóru íþróttaviðburðina sem fram undan eru,“ segir Andrés og bætir við að hann sé mjög ánægður með útkomuna.

Þeir Andrés og Ómar Ingimars­son eru ekki að opna bar í fyrsta skipti en þeir ráku staðinn Brook­lyn Bar sem var í sama húsnæði.

„Við opnuðum Brooklyn Bar, það gekk ekki alveg eins og ætlað var, en við lærðum af reynslunni. Brooklyn Bar þróaðist hálf partinn í hamborgarastað en það var alls ekki ætlunin. Við tókum því ákvörðun um að loka staðnum og byrja upp á nýtt; á Drunk Rabbit komum við einungis til með að bjóða upp á snarl með drykkjunum,“ segir Andrés fullur bjartsýni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×