Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, er fullviss um að hans menn geti snúið taflinu við í einvíginu gegn Liverpool í Evrópudeildinni annað kvöld.
Liverpool vann 2-0 sigur í fyrri leiknum á Anfield og er í flottum málum fyrir seinni leikinn á Old Trafford annað kvöld. Skori Liverpool eitt mark þarf United að skora fjögur.
„Við viljum ekki fá á okkur mark. Við hugsum bara um að skora mörk,“ sagði Van Gaal á fréttamannafundi fyrir leikinn í dag. „Við gerðum það gegn Midtjylland í síðustu umferð. Við viljum ekki fá á okkur mark, en ef það gerist þá getum við skorað fjögur.“
Hollendingurinn telur að United-liðið skuldi stuðningsmönnunum magnaða kvöldstund á Old Trafford og hvetur fólkið í Manchester til að styðja við bakið á strákunum á morgun.
„Við þurfum stuðninginn því hann skiptir máli. Við skuldum stuðningsmönnunum stór úrslit því þeir borga fyrir að sjá okkur skila góðum úrslitum,“ sagði Louis van Gaal.
