Viðskipti innlent

Tillaga um 90 prósent lækkun stjórnarlauna Glitnis felld

ingvar haraldsson skrifar
Óttari hafði ekki erindi sem erfiði á aðalfundi Glitnis.
Óttari hafði ekki erindi sem erfiði á aðalfundi Glitnis. vísir
Tillaga Óttars Guðjónssonar, framkvæmdastjóra Lánasjóðs sveitarfélaganna um 90 prósent lækkun stjórnarlauna eignarumsýslufélagsins Glitnis HoldCo var felld á aðalfundi félagsins í dag.

Því munu stjórnarmenn Glitnis, Tom Grøndahl og Steen Parsholt, fá sem samsvara 4,12 milljónum króna á mánuði og stjórnarformaðurinn, Mike Wheeler, 6,2 milljónir króna á mánuði. Þar að auki munu stjórnarmennirnir fá tæplega milljón króna greidda á dag vinni þeir umfram 72 daga á ári fyrir Glitni.

Óttar bauð sig einnig fram til stjórnar Glitnis til að sýna fram á að hægt væri að fá hæft fólk til að starfa fyrir Glitni á þeim launum sem hann hafði lagt til. Hann naut hins vegar ekki stuðnings aðalfundar til þeirra starfa.

Naut meiri stuðnings en hann bjóst við

Tillaga Óttars um lækkun stjórnarlauna naut stuðnings 8,3 prósent þeirra sem greiddu atkvæði á fundinum. Óttar segir Íslendinga 5 prósent hluthafa í Glitni og því hafi tillagan notið meiri stuðnings en hann hafi búist við. „Þetta var miklu meira en ég átti von á, segir Óttar í samtali við Vísi.

Stjórnarmenn gætu fengið milljarða greiðslur

Þá var áætlun um hvatagreiðslur einnig samþykkt sem felur í sér að stjórendur og stjórnarnmenn Glitnis gætu fengið milljarða í sinn hlut. Áætlunin felur í sér að stjórnarmenn og stjórnendur Glitnis skipta með sér 20 prósent af greiðslum sem fáist umfram 1,17 milljarða evra og upp að 1,23 milljörðum evra. Stjórnendahópurinn fær svo 15,5 prósent af innheimtum umfram 1,23 milljarðar evra.

Fari greiðslurnar upp í efri mörkin og nemi 1,23 miljarði evra skipta stjórnarmenn og stjórnendur Glitnis með sér 1,7 milljarði króna. Greiðslurnar gætu þó orðið mun hærri.

Mike Wheeler, stjórnarformaður Glitnis á að fá í sinn hlut 26,9 prósent af greiðslunni. Þá fá hinir tveir stjórnarmennirnir, sem nú eru Tom Grøndahl og Steen Parsholt, 23,9 prósent upphæðarinnar. Stjórnin hefur einnig heimild til að semja við æðstu stjórnendur Glitnis um greiðslur upp á 26,1 prósent upphæðarinnar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×