Viðskipti innlent

Laun verkafólks hækkuðu um 11 prósent

Sæunn Gísladóttir skrifar
Árshækkun frá fjórða ársfjórðungi 2014 var 9 prósent að meðaltali.
Árshækkun frá fjórða ársfjórðungi 2014 var 9 prósent að meðaltali. vísir/daníel
Regluleg laun voru að meðaltali 2,3 prósent hærri á fjórða ársfjórðungi 2015 en á ársfjórðungnum á undan. Árshækkun frá fjórða ársfjórðungi 2014 var 9 prósent að meðaltali, hækkunin var 8,9 prósent á almennum vinnumarkaði og 9 prósent hjá opinberum starfsmönnum. Þar af hækkuðu laun ríkisstarfsmanna um 10,2 prósent og laun starfsmanna sveitarfélaga um 7,6 prósent.

Laun verkafólks hækka mest

Frá fyrri ársfjórðungi var hækkun reglulegra launa eftir starfsstétt á bilinu 1,1 prósent til 3,1 prósent. Laun sérmenntaðs starfsfólks hækkuðu mest en iðnaðarmanna minnst milli ársfjórðunga. Árshækkun frá fjórða ársfjórðungi 2014 var mest hjá verkafólki eða um 11 prósent en minnst hjá stjórnendum eða um 5,9 prósent. Á sama tíma hækkuðu regluleg laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks um 9,9 prósent, sérmenntaðs starfsfólks um 9,7 prósent, skrifstofufólks um 9,5 prósent og iðnaðarmanna um 8,0 prósent.

Frá fyrri ársfjórðungi mældist hækkun reglulegra launa mest í fjármálaþjónustu eða um 3,9 prósent. Þá hækkuðu laun á milli ársfjórðunga um 2,0 prósent í samgöngum, 1,6 prósent í verslun, 1,2 prósent í iðnaði og 1,1 prósent í byggingarstarfsemi. Árshækkun frá fjórða ársfjórðungi 2014 var mest í samgöngum eða um 10,3 prósent en minnst í fjármálaþjónustu eða um 7,7 prósent.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×