Lífið

Verð að vita eitthvað sjálfur

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Ég byrja á að safna upplýsingum og skoða hvað skiptir máli, hvað verður að koma fram og hvernig ég get matreitt það þannig að það veki athygli og skilji eitthvað eftir í huga fólks,“ segir Ævar Þór.
"Ég byrja á að safna upplýsingum og skoða hvað skiptir máli, hvað verður að koma fram og hvernig ég get matreitt það þannig að það veki athygli og skilji eitthvað eftir í huga fólks,“ segir Ævar Þór. Vísir/Stefán
„Ég er spenntur fyrir þessu nýja starfi en aðallega þó upp með mér yfir að UNICEF skyldi hafa samband við mig“ segir Ævar Þór Benediktsson,“ vel þekktur sem Ævar vísindamaður sem verður talsmaður UNICEF-hreyfingarinnar í ár.

Hann ætlar að hjálpa til við að fræða börn um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og auka skilning þeirra á því hvernig réttindi barna hafa tengingu við daglegt líf þeirra.

Ævar kveðst ekkert endilega hafa verið á lausu en ákveðið að búa til tíma fyrir þetta verkefni.

„Ég er aðallega að skrifa bækur og gera útvarps- og sjónvarpsþætti og finn bara auka klukkutíma til að geta lagt þessu málefni lið. UNICEF-hreyfingin skiptir miklu máli og þá bara forgangsraðar maður,“ segir hann ákveðinn.

„Ég er búinn að vera á nokkrum undirbúningsfundum með starfsfólki UNICEF. Við erum með alls konar hugmyndir í gangi til að finna út hvernig ég nýtist sem best og svo fer boltinn hratt af stað þegar við byrjum.“





 

Í ár verður sérstök áhersla lögð á Sýrland og Ævar ætlar að miðla til barnanna ýmsum staðreyndum um Sýrland, stríðið og áhrif þess á börn. Þegar hann hefst handa kveðst hann nálgast verkefnið eins og þegar hann er að vinna þættina sína.

„Ég byrja á að safna upplýsingum og skoða hvað skiptir máli, hvað verður að koma fram og hvernig ég get matreitt það þannig að það veki athygli og skilji eitthvað eftir í huga fólks.“

En ætlar hann að fara út á mörkina eða bara nota miðlana?

„Ég mun nýta allt sem ég get og örugglega leika mér eitthvað með miðlana, þannig náum við flestum.“ Spurður hvort hann verði nokkuð sendur til Sýrlands svarar Ævar:

„Sú hugmynd hefur ekki komið upp. En það fylgir þessu verkefni að kafa ofan í málefni þess heimshluta því ef ég ætla að fræða fólk verð ég að vita eitthvað sjálfur og mér er ljúft og skylt að gera mitt besta í þeim efnum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×