Viðskipti innlent

Tæplega 118 þúsund búnir að skila

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Í dag er um að gera að skila skattaskýrslunni eða sækja um frest.
Í dag er um að gera að skila skattaskýrslunni eða sækja um frest. Vísir
Í dag er síðasti skiladagur skattframtals einstaklinga og því eðlilega mikið að gera hjá Ríkisskattstjóra. Þegar fréttastofa hafði samband höfðu 117.614 einstaklingar þegar skilað inn sem er svipuð tala, en þó örlítið hærri, en á sama tíma í fyrra. Skilin eru nær einvörðungu rafræn í ár eins og í fyrra en þá skiluðu um 99,8% skattgreiðenda í gegnum netið.

„Það er mikill annatími núna. Það hringdu inn til okkar um 3800 manns í gær og hingað á aðalskrifstofuna á Laugaveginum mættu 1104,“ segir Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri. „Við erum með rúmlega 40 manns á símavakt. Í afgreiðslunni eru 10-13 manns á vakt. Þetta er mikið álag sem myndast hér á stuttum tíma en ég held að við höfum náð að sinna þessu vel. Þegar mest var voru 50 manns að bíða hér í andyrinu en ég held að enginn hafi þurft að bíða lengur en í 30 mínútur“.

Skúli segir að ekki hafi verið nein teljandi vandamál í ár. Örlítið hik hafi verið á vefnum í gær sem nú sé búið að laga og því ættu skattgreiðendur ekki að finna fyrir neinum óþægindum í dag.

Margir hafa sótt um frest og fengið. Þetta dreifir álaginu fram yfir helgi. Skúli segir það ekkert tiltökumál að sækja um frest en það verði þá að gerast í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×