Lífið

Hefur misst sextíu kíló: „Annað hvort að gera eitthvað í þessu, eða vera dauður fyrir fertugt“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gríðarlega flottur árangur hjá Benjamín.
Gríðarlega flottur árangur hjá Benjamín. vísir
„Ég byrjaði að þyngjast í kringum tvítugt og það bara hætti síðan ekki,“ segir Benjamín Þórðarson, 38 ára, sem var orðinn 195 kíló þegar hann var sem þyngstur. Benjamín var gestur í þættinum Brennslan á FM957 í morgun og sagðist þar hafa horft fram á að verða farlama eða hreinlega í lífshættu.

„Ég var alltaf að fara í megrun sem skilaði aldrei neinu. Þetta var orðið þannig að maður gerði ekkert í lífinu.“

Benjamín gjörbreytti um lífsstíl og var nýkominn úr ræktinni þegar Brennslubræður bjölluðu á hann.

„Ég byrjaði að taka mig á um mitt ár 2012. Það var annað hvort að gera eitthvað í þessu, eða vera dauður fyrir fertugt. Ég var þyngstur 195 kíló,“ segir Benjamín sem er 182 sentímetrar á hæð.

„Ef maður er bara alveg hreinskilin þá er það algjörlega ógeðslegt. Það sem bjargaði stoðkerfinu hjá mér var að ég er með mjög góðan íþróttabakgrunn úr frjálsum íþróttum og fótbolta og því eru hné og bak í lagi á mér í dag.“

Hann man vel eftir deginum þar sem hann ákvað virkilega að taka sig í gegn, það var 15. júlí 2013.

„Þann dag ákvað ég að hætta borða nammi og hef ekki borðað nammi síðan. Núna er ég búinn að léttast um 59 kíló,“ segir Benjamín sem borðaði mikinn sykur á sínum tíma og sykurinn varð honum að falli.

„Ég drakk einnig alveg gríðarlegt magn af gosi en það er ekkert svoleiðis í dag, ekkert sætabrauð, ekkert nammi og ekkert gos. Maður hefur oft heyrt að matarræðið sé svona 70% en ég vil meina að það sé svona 90%.“

Í dag æfir hann átta sinnum í viku en byrjaði fyrst á því að fara bara í sund.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×