Innlent

Sex milljarðar tákna á hverjum degi

Birta Björnsdóttir skrifar
Myndletur, eða emoji, eru orðin órjúfanlegur hluti rafrænna samskipta. Táknin geta hjálpað okkur að tjá gleði og sorg, ást og hatur og komið því til kynna á einfaldan þátt hvað við erum hissa, kjánaleg, vongóð eða hugsi. Þá eru ótaldir þeir óteljandi möguleikar til að skreyta mál okkar.

Rakel Tómasdóttir, hönnuður hjá Glamour á Íslandi, skrifaði lokaritgerð sína við Listaháskóla Íslands um emojis sem samskiptaleið.

„Það er mikið í gangi núna og þess vegna fannst mér spennandi að fjalla um það," segir Rakel.

„Þetta er eitthvað sem allir nota og tengja við og ég er búin að eiga mjög skemmtileg samtöl við alls konar fólk um emojis. Þetta bætir við upplýsingum um það sem maður er að segja og segir einnig mikið um það sem manni finnst um það sem verið er að skrifa."

Emoji er japanskt hugtak sem þýðir myndtákn. Upphafsmaður þess er Shigetaka Kurita, starfsmaður hjá japönsku margmiðlunarfyrirtæki sem í lok 10. áratugarins leitaði nýrra leiða til að aðgreina sig frá samkeppnisaðilum. Sem fyrr segir er myndletrið mikið notað og talið er að  um 6 milljarðar emoji tákna berist manna á milli daglega. Ein besta staðfestingin á því er sú staðreynd að í árlegu vali Oxford-orðabókarinnar á orði ársins var tákn fyrir valinu, gulur kall sem tárfellir úr hlátri.

„Það er mjög skemmtilegt að sjá hvernig þetta er að þróast, það er þessi myndræna leið sem notum í auknu mæli til að eiga í samskiptum og tjá alls konar hluti. SnapChat er gott dæmi um slíkt, þegar fólk sýnir með svipbrigðum hvað það vill segja og samskiptin byggja á því. Þessi myndræna leið til að eiga í samskiptum er eitthvað sem mun klárlega halda áfram,“ segir Rakel.

Á meðfylgjandi myndskeiði má svo sjá hvaða emojis eru í mestu uppáhaldi hjá Rakel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×