Nú stendur yfir leikur Breiðabliks og Víkings frá Ólafsvík í Lengjubikarnum.
Blikinn Höskuldur Gunnlaugsson skoraði gjörsamlega geggjað mark snemma í leiknum og kom Blikum yfir. Hjólhestaspyrna í slána og inn. Sturlað mark.
Leik liðanna lyktaði síðan með 2-2 jafntefli. Blikar leiddu 2-0 í hálfleik þökk sé markinu frá Höskuldi og svo marki frá Atla Sigurjónssyni.
Víkingarnir frá Ólafsvík gáfust ekki upp. Bitu í skjaldarrendur og mættu helgrimmir í seinni hálfleikinn.
Kenan Turudija minnkaði muninn strax í upphafi seinni hálfleiks og Hrvoje Tokiv jafnaði svo metin nokkrum mínútum síðar. Ekki meira var skorað og því skiptu liðin með sér stigunum.
Blikarnir komust upp að hlið Fylkis á toppi riðils 2 en Fylkir á leik inni. Víkingur er stigi þar á eftir.
