Viðskipti innlent

Lagt til að laun stjórnarmanna hækki um 20 prósent

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Stjórn leggur til að þóknun fyrir stjórnarsetu hækki um 20 prósent.
Stjórn leggur til að þóknun fyrir stjórnarsetu hækki um 20 prósent. vísir/valli
Stjórn útgerðarfyrirtækisins HB Granda leggur til að laun stjórnarmanna fyrirtækisins hækki um 20 prósent, úr 200 þúsund krónum á mánuði í 240 þúsund krónur. Þá mun formaður fá tvöfaldan hlut. Einnig leggur stjórnin til að hluthöfum verði greiddir rúmir þrír milljarðar króna í arð.

Kristján Loftsson er formaður HB Granda en aðrir stjórnarmenn eru Halldór Teitsson, Hanna Ásgeirsdóttir, Rannveig Rist og Þórður Sverrisson. Verða tillögur stjórnar um hækkun þóknunar fyrir stjórnarsetu og greiðslu arðs til hluthafa teknar fyrir á aðalfundi HB Granda sem fram fer þann 1. apríl næstkomandi.

Ákvörðun aðalfundar HB Granda á síðasta ári þegar samþykkt var að hækka stjórnarlaun um 33 prósent, úr 150 þúsund krónum í 200 þúsund krónur á mánuði þótti umdeild.

Mikill hiti var í fiskverkafólki HB Granda í kjölfar þess að ákvörðunin var tekin. Gagnrýnt var að almennir starfsmenn fengu ekki að njóta góðs af góðum árangri fyrirtækisins í sama mæli og stjórnarmenn.

Stjórn HB Granda leggur einnig til að hluthöfum verði greiddar 1,7 krónur á hlut í arð, rúma þrjá milljarða, eða 4,1 prósent af markaðsvirði hlutafjár í lok árs 2015.  Hagnaður útgerðarfyrirtækisins á liðnu ári nam 6,5 milljörðum króna en árið áður var hagnaðurinn 5,3 milljarðar króna.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×