Viðskipti innlent

VÍS lækkar arðgreiðslu um þrjá milljarða

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Stjórnin segir núverandi arðgreiðslustefnu geta skaðað orðspor fyrirtækisins. Herdís Dröfn Fjeldsted stjórnarformaður VÍS.
Stjórnin segir núverandi arðgreiðslustefnu geta skaðað orðspor fyrirtækisins. Herdís Dröfn Fjeldsted stjórnarformaður VÍS.
Stjórn VÍS hefur ákveðið að endurskoða tillögu sína um fimm milljarða arðgreiðslu til eigenda fyrirtækisins og lækka hana niður í rúma tvo milljarða. Tillagan felur í sér að félagið greiði hluthöfum arð sem nemur hagnaði síðasta árs. Þetta kemur fram á vef tryggingafélagsins.

Í greinargerð stjórnarinnar segir að fimm milljarða arðgreiðslan sé í fullu samræmi við markmið um að há­marka arðsemi þeirra hátt í þúsund hlut­hafa fé­lags­ins og tryggja að fé­lagið stæði sterkt að vígi en að álit viðskiptavina skipti máli.

„Stjórn­in get­ur ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að fylgi hún nú­ver­andi arðgreiðslu­stefnu, þá geti það skaðað orðspor fyr­ir­tæk­is­ins. Í því ljósi hef­ur stjórn ákveðið að leggja til að arðgreiðsla sé miðuð við hagnað síðasta árs,“ segir í greinargerðinni.

„Stjórn VÍS tel­ur mik­il­vægt að fram fari umræða inn­an fé­lags­ins, meðal hlut­hafa og út í sam­fé­lag­inu um lang­tíma­stefnu varðandi ráðstöf­un fjár­muna sem ekki nýt­ast rekstri skráðra fé­laga á markaði.“

Vísir hefur fjallað um arðgreiðslur tryggingarfélaga með ítarlegum hætti undanfarna daga þar sem meðal annars hefur komið fram að stóru tryggingafélögin þrjú – VÍS, Sjóvá og TM – hafi ætlað að greiða 9,6 milljarða í arð og kaupa af eigendum hlutafé fyrir allt að 3,8 milljarða.

Á sama tíma voru félögin að hækka iðgjöld viðskiptavina sinna.

Fyrr í dag ákvað stjórn Sjóvá að bregðast við umræðu um arðgreiðslurnar með því að breyta tillögu sinni um arðgreiðslu, líkt og VÍS hefur nú gert. Stjórnir beggja fyrirtækja höfðu áður gefið út með tilkynningum á þriðjudag að ekki ætti að endurskoða arðgreiðslurnar.

Stjórn VÍS sagðist þá hafa skilning á því að mörgum þyki fyrirhugaðar arðgreiðslur félagsins háar en að komandi hluthafafundur væri réttur vettvangur til að ræða málefni félagsins.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×