Viðskipti innlent

LÍN og námsmenn erlendis

Sigrún Dögg Kvaran skrifar
Kostir þess að fara í nám erlendis eru margvíslegir, ekki bara fyrir einstaklinginn heldur líka fyrir samfélagið. Það er samfélaginu mikilvægt að námsmenn fari utan í nám og kynnist nýrri menningu, nái sér í aukna reynslu og fái nýja innsýn. Flestir geta verið sammála um að þetta er þroskandi reynsla sem eykur fjölbreytileika samfélagsins og er afar mikilvægt atvinnulífinu. Það væri fátæklegt samfélag þar sem fáir færu í nám erlendis eða það væri eingöngu mögulegt fyrir örfáa útvalda sem hefðu sterkt efnahagslegt bakland.

LÍN er lykilstofnun hvað varðar jafnan aðgang og möguleika einstaklinga til náms. Að fara í nám erlendis getur verið kostnaðarsamt, oft eru skólagjöld sem þarf að standa skil á og svo þarf að framfleyta sér í nýju og framandi landi. Því treysta íslenskir námsmenn á LÍN, bæði til að fá lánað fyrir skólagjöldum og framfærslu erlendis. Hins vegar eru blikur á lofti, samhliða harkalegum niðurskurði á framfærslu- og skólagjaldalánum LÍN hefur dregið úr fjölda námsmanna sem kjósa að fara í nám erlendis. Samkvæmt ársskýrslu LÍN 2014 hefur lánþegum í námi erlendis fækkað um 14 prósent á fimm ára tímabili. Hér er sterk fylgni á milli harkalegs niðurskurðar framfærslulána og fjölda námsmanna sem fara í nám erlendis.

Eitt af sérkennum íslenskra námsmanna er fjölskyldusamsetningin en oft eru þeir með börn á framfæri. Þessi hópur námsmanna, fjölskyldufólk, treystir á námslánin til að framfleyta sér á meðan á námi stendur. Samkvæmt ársskýrslu LÍN 2014 voru 17 prósent lánþega erlendis pör með eitt eða fleiri börn á framfæri og 5 prósent einstæðir foreldrar. Án þess að alhæfa er líklegt að fjölskyldufólk sé ekki jafn viljugt og barnlausir til að taka fjárhagslegar áhættur.

Raunveruleikinn er sá að nú til dags er það fjárhagsleg áhætta að flytja utan í nám með börn á framfæri, þar sem óvissan vofir yfir um hve mikill næsti niðurskurður hjá LÍN verði.

Hver er stefna stjórnvalda í málefnum námsmanna erlendis?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×