Salurinn í Eldborg var troðfullur um páskana, þann 26. mars nánar tiltekið, til að hlusta á hina goðsagnakenndu hljómsveit Trúbrot flytja meistaraverk sitt Lifun. Á ákveðnum tímapunkti henti Gunnar Þórðarson spurningu fram í salinn: „Réttið upp hönd sem eiga peninga á Tortóla? Hverjir eiga peninga á Tortóla? Ekki það? Nei, við megum bara eiga krónur, ekki einu sinni evrur!“

Orð Gunnars, þessa eins ástsælasta tónlistarmanns þjóðarinnar er vitaskuld með vísan í Wintris-málið sem nú skekur ríkisstjórnina.
Vísir náði ekki í Gunnar Þórðarson sjálfan en ræddi við Magnús Kjartansson, sem ásamt Shady Owens, skipa hljómsveitina Trúbrot. Magnús segir það alveg mega rétt heita að þegar samfélagsástandið er tekið fyrir með þessum hætti, á tónleikum, þá sé farið að ískra í öllum ventlum. „Stóra spurningin er; hvað gerir San Francisco-ballettinn, hvort einhver dansarinn fari að varpa pólitískum spurningum út í salinn, á sokkabuxum?“ segir Magnús og hlær.
Ef einhver tónlistargesta á umrætt atriði til á snjallsíma sínum, væri þakklátt að fá það sent, svo sýna megi lesendum Vísis stemmninguna í salnum. Og það má þá senda á jakob@365.is.