Innlent

Gunni Þórðar spyr um Tortóla-peninga

Jakob Bjarnar skrifar
Óvæntur snúningur á Wintris-málinu. Enginn í troðfullum Eldborgarsalnum sagðist eiga neina peninga á Tortóla.
Óvæntur snúningur á Wintris-málinu. Enginn í troðfullum Eldborgarsalnum sagðist eiga neina peninga á Tortóla. Myndin er samsett
„Hann hefur alltaf verið tilbúinn að standa með skoðunum sínum. Ég geri nú ekki ráð fyrir því að hann hafi verið að bulla þetta uppúr sér óhugsað,“ segir Magnús Kjartansson tónlistarmaður. Og bætir því við að allir tónlistarmenn þeir sem fram komu hafi verið hjartanlega sammála Gunnari Þórðarsyni.

Salurinn í Eldborg var troðfullur um páskana, þann 26. mars nánar tiltekið, til að hlusta á hina goðsagnakenndu hljómsveit Trúbrot flytja meistaraverk sitt Lifun. Á ákveðnum tímapunkti henti Gunnar Þórðarson spurningu fram í salinn: „Réttið upp hönd sem eiga peninga á Tortóla? Hverjir eiga peninga á Tortóla? Ekki það? Nei, við megum bara eiga krónur, ekki einu sinni evrur!“

Magnús Kjartansson segir þá tónlistarmenn sem á sviðinu voru hafa verið hjartanlega sammála Gunnari.JÓHANNES K. KRISTJÁNSSON
Þetta er í endursögn eins gesta, Stefáns Jóns Hafstein sem greindi frá atvikinu á Facebook-síðu sinni, sem telur þetta tíðindum sæta, af samfélagsástandi: „Það er eitthvað að gerast djúpt undir niðri þegar maður sér Gunnar Þórðarson (hógvær, hlédrægur, feiminn, prúður, Bláu augun þín Gunni) standa á fremstu brún í Eldborg fyrir fullum sal og þruma yfir lýðinn,“ skrifar Stefán Jón og telur sig verða að vekja athygli á þessu, sem vitni.

Orð Gunnars, þessa eins ástsælasta tónlistarmanns þjóðarinnar er vitaskuld með vísan í Wintris-málið sem nú skekur ríkisstjórnina.

Vísir náði ekki í Gunnar Þórðarson sjálfan en ræddi við Magnús Kjartansson, sem ásamt Shady Owens, skipa hljómsveitina Trúbrot. Magnús segir það alveg mega rétt heita að þegar samfélagsástandið er tekið fyrir með þessum hætti, á tónleikum, þá sé farið að ískra í öllum ventlum. „Stóra spurningin er; hvað gerir San Francisco-ballettinn, hvort einhver dansarinn fari að varpa pólitískum spurningum út í salinn, á sokkabuxum?“ segir Magnús og hlær.

Ef einhver tónlistargesta á umrætt atriði til á snjallsíma sínum, væri þakklátt að fá það sent, svo sýna megi lesendum Vísis stemmninguna í salnum. Og það má þá senda á jakob@365.is.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×