Fótbolti

Heimir: „Okkur er farið að þyrsta í góðan sigur“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. vísir/anton
„Maður er alltaf svekktur eftir alla tapleiki,“ segir Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Íslands, eftir tapið gegn Dönum í kvöld. Íslenska liðið tapaði í vináttulandsleik gegn því danska, 2-1, og fór leikurinn fram í Herning.

„Maður verður bara að viðurkenna það að þetta var verðskuldaður sigur hjá Dönum, þeir voru bara sterkari en við og spiluðu leikinn með miklu meira sjálfstrausti en við, bæði sóknarlega og varnarlega.“

Sjá einnig: Umfjöllun: Danmörk – Ísland 2-1 | Slakur varnarleikur varð okkur að falli

Heimir segir að liðið hafi einfaldlega ráðið illa við leikkerfi danska liðsins í kvöld.

„Við virtumst alltaf vera undirmannaðir, sérstaklega á miðsvæðinu. Við vorum því að glíma við erfiðar ákvarðanatökur fyrir bakverðina og vængmenn okkar. En við getum lært heilmikið af þessum leik.“

Þjálfarinn vildi ekki meina að það hafi vantað upp á vinnusemi leikmanna liðsins í kvöld.

„Það vantaði samt sem áður kannski aðeins upp á frumkvæðið í varnarleiknum. Við hefðum þurft að stjórna varnarleik okkar betur, og við vorum alltaf aðeins á eftir. Við vorum frekar að elta, frekar en að stjórna varnaleik okkar.“

Hafa ekki áhyggjur

Hann segist ekki hafa áhyggjur af leik liðsins, nú þegar um tveir og hálfur mánuðir er í EM í Frakklandi.

„Við höfum engar sérstakar áhyggjur af liðinu en við erum auðvitað eins og flestir aðrir og okkur er farið að þyrsta í góðan sigur. En ef við eigum að tapa, þá er betra að gera það í vináttuleikjum.“

Íslenska liðið mætir því gríska á þriðjudaginn í öðrum vináttulandsleik.

„Þeir voru að spila við Svartfjallaland áðan og unnu þá. Þeir hafa verið að spila svipað kerfi og Danir og því vona ég að við náum að finna lausn á því í leiknum á þriðjudaginn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×