Lífið

Við erum pabbi og mamma hérna

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Ólafur og Elín kynntust í kristilegu hjálparstarfi þar sem þau voru með súpugjafir niðri í bæ fyrir útigangsfólk. Svo fengu þau tækifæri til að stofna Draumasetrið og þar með rættist stór draumur.
Ólafur og Elín kynntust í kristilegu hjálparstarfi þar sem þau voru með súpugjafir niðri í bæ fyrir útigangsfólk. Svo fengu þau tækifæri til að stofna Draumasetrið og þar með rættist stór draumur. Vísir/Hanna
Draumasetrið er í þriggja hæða húsi við Héðinsgötu sem eitt sinn hýsti Olís og síðar Tollinn. Huggulegur pallur er við útidyrnar og innan við þær, til hægri handar, enn huggulegra kaffihús. Hvort tveggja fyrir íbúa hússins hverju sinni.

Í kaffistofunni eru bókahillur, stór flatskjár, hljómflutningstæki og meira að segja nokkur hljóðfæri innan um blóm og falleg húsgögn. Þarna tyllum við okkur við eitt borðið, húsráðendurnir, Elín Arna Arnardóttir og Ólafur Haukur Ólafsson, og ég, þau hella kaffi í bolla og bjóða prins póló, bara eins og þau viti að það er uppáhaldið mitt.

Af hverju heitir þetta Draumasetrið? Ólafur verður fyrir svörum.

„Við höfðum Dream center, sem eru samtök í Ameríku, sem dálitla fyrirmynd, þó það sé reyndar stórt og mikið batterí. Það sem vakti fyrir okkur með stofnun heimilisins var að draga úr þeirri neyð sem sumir fyrrverandi fíklar búa við. Þeir eru svo margir á götunni.“

 

Til að fá inni í Draumasetrinu þarf fólk að vera búið að vera edrú í tíu daga, að sögn Elínar. Þá daga verður það að koma þangað daglega, stimpla sig inn og sitja fundi.

„Við teljum að hér á Íslandi séu bestu meðferðir í heimi – á Vogi og víðar,“ segir hún. „En svo vantar eftirfylgni þegar fólk hefur útskrifast þaðan og því er árangurinn ekki betri en hann er. Stundum hefur fólk engan stað til að fara á nema gamla neyslustaðinn. Þá er ekki von á góðu.“

Að mæta fólki af kærleika og hugsa um það sem manneskjur en ekki fíkla segir Ólafur vera númer eitt í þeirra starfi.

„Aðalatriðið er að finna það besta í fólki og byggja upp sjálfstraust þess svo það átti sig á að það sé mikils virði og eigi rétt á mannsæmandi lífi, hvernig sem fortíðin er. Mikilvægast er að taka burtu dóminn. Við höfum ekki efni á að dæma og höfum fókuserað dálítið á þá vonlausu eins og þeir eru stundum kallaðir.“

„Sem hinar stofnanirnar eru búnar að gefast upp á,“ tekur Elín undir. „Það er enginn vonlaus, heldur þarf að taka utan um þessa einstaklinga og styrkja þá.“



Fyrrverandi fíklar sjálf

Sjálf eru þau hjón bæði fyrrverandi fíklar. Ólafur segist hafa verið í mikilli neyslu í Svíþjóð í tíu ár, í Stokkhólmi og Uppsölum, en komið heim 2010, þá mjög illa farinn.

„Ég gat varla gengið, var með taugaskemmdir víða og titraði og skalf, enda með sögu um þrjú hjartastopp á þremur árum. Mér var hjálpað af einstaklingi sem hafði sjálfur verið að berjast og ég er auðmjúkur og þakklátur fyrir að hafa öðlast lífið aftur.“

Elín leiddist snemma út í neyslu og missti tök á lífinu, að eigin sögn.

„Ég hélt þetta væri unglingavandamál sem eltist af mér en það reyndist ekki rétt. Ég fór í fyrstu meðferðina 2006 og átti eftir að fara í nokkrar eftir það, þá síðustu 2009, svo nú er ég búin að vera edrú í sex og hálft ár. Ég fór í ráðgjafaskóla og útskrifaðist sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi og fékk strax mikinn áhuga á því starfi. Það hefur alltaf átt vel við mig að hjálpa öðrum.

Við Ólafur kynntumst í kristilegu hjálparstarfi, vorum með súpugjöf fyrir útigangsmenn niðri í bæ. Svo fengum við tækifæri til að stofna þetta heimili og þar rættist stór draumur.“

En hvernig fer fólk sem er búið að vera í neyslu lengi að því að fjármagna svona setur?

„Það var góður maður sem keypti húsið fyrir okkur. Hann heitir Örn Helgason og er pabbi minn,“ segir Elín.

„Já, Örn hefur reynst okkur rosalega vel,“ segir Ólafur. „Hann rekur húsaviðgerðarfyrirtæki og málningarfyrirtæki og lánaði okkur tæki, tól og mannskap en við unnum líka mikið sjálf við endurbæturnar á húsinu.

„Já, ég kann orðið að múra, mála og smíða,“ segir Elín brosandi og segir þau stundum hafa verið að heilu sólarhringana.

Sumt efni til framkvæmdanna segjast þau hafa fengið úr húsum sem verið var að rífa, annað hafi þeim verið gefið af fórnfúsum foreldrum stúlku sem bað um dvalarleyfi og einn aðalstuðningsmaður þeirra hafi verið í göngutúr fram hjá húsinu á páskum 2012 og það sem þar var verið að gera hafi snert hjarta hans.

„Við eigum aldrei peninga – en þeir koma til okkar. Fyrir utan einstaklinga hafa mörg góð fyrirtæki og félög styrkt okkur.“

Íbúarnir sem nú eru um 40 talsins greiða lága leigu, húsaleigubætur koma á móti svo húsið stendur undir sér sjálft að sögn Ólafs sem tekur fram að þau borgi Erni leigu svo hann eigi ekki að tapa á þeim. „Við viljum hafa allt á hreinu,“ áréttar Elín.

 Fjörutíu herbergi eru í húsinu, nokkur þeirra tveggja manna, og mér er boðið að labba um húsakynnin.

Íbúð þeirra hjóna er á neðstu hæð en við höldum upp stigana. Stofur og eldhús eru á hverri hæð og á þeirri efstu myndarlegt herbergi fyrir morgunfundina, með stóru borð og útsýni úr gluggum út á sundin. Allt er hreint og snyrtilegt, að minnsta kosti í þessu sameiginlega rými, og þar hafa íbúarnir skyldum að gegna.

Hjónin segjast hvetja þá alla til að hafa eitthvað uppbyggilegt fyrir stafni og flestir þeirra séu í vinnu, skóla eða endurhæfingu. Þeir kaupi inn hver fyrir sig og eigi sína hillu í opnum skáp við eldhúsið.

Ýmist elda þeir sjálfir eða með öðrum að sögn Elínar.

„Hér eru matarklúbbar og stundum eldum við öll saman. Förum með dósapeninginn einu sinni í mánuði og kaupum í matinn fyrir hann,“ lýsir hún. „En fyrir stórhátíðir eins og nú er fram undan verðum við að sníkja mat hjá birgjum til að geta haft eitthvað gott á borðum fyrir fólkið.“

Það eru verðlaun

Ekkert starfsfólk er í setrinu nema hjónin og þau þurfa að vinna annars staðar til að hafa í sig og á. Ólafur, sem kokkur á BSÍ á morgnana, og Elín Arna á sambýli um kvöld og nætur. „Við erum samt mamma og pabbi hérna,“ segir Ólafur.

Þau eru þakklát fyrir Samfélagsverðlaunin frá Fréttablaðinu sem voru í flokknum Hvunndagshetjan - og þann hug sem að baki þeim býr. Segjast finna mikla velvild frá fólki sem hafi verið hjá þeim. En útskrifast einhverjir frá Draumasetrinu?

„Já, dvöl hér á að vera tímabundið úrræði og það er best ef hreyfing er á fólki en auðvitað er leigumarkaðurinn erfiður,“ segir Ólafur.

Elín tekur undir það. „Þetta er áfangaheimili og við viljum að fólk noti dvölina hér sem áfanga til að komast út í þjóðfélagið og standa á eigin fótum. Fyrsti íbúinn sem kom hingað fór héðan fyrir mánuði. Eignaðist yndislega fjölskyldu og er kominn í íbúð.“

Ólafur nefnir fleiri falleg dæmi. „Hingað kom maður sem hafði kveikt í sér og var deyjandi fyrir tveimur árum. Í dag býr hann með yndislegri konu, er kominn með flott starf og er alveg til fyrirmyndar og ein kona kom hingað í dag, hún bjó hjá okkur um tíma en er búin að finna hamingjuna, var að eignast barn og kom að sýna okkur það. Það eru verðlaun. Og að mæta frægasta róna bæjarins hér á ganginum, það eru líka verðlaun. Hann er flottur, búinn að vera edrú lengi.“

En verða þau hjón aldrei fyrir vonbrigðum?

„Jú, margoft,“ viðurkennir Elín. „Ég tók mjög nærri mér fyrst ef einhver datt í það. En með tímanum lærir maður að taka því og í langflestum tilfellum kemur fólk til okkar aftur og nær bata, þó hitt sé líka til.“

 

Greinin/fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. mars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×