Lífið

Maður þarf að leggja smá á sig til að ná árangri

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Katrí­n Agla Tómasdóttir segir spurningakeppni í Hagaskóla hafa espað upp í henni frettablaðið/hanna
Katrí­n Agla Tómasdóttir segir spurningakeppni í Hagaskóla hafa espað upp í henni frettablaðið/hanna Vísir/Hanna
„Ég var í spurningaliði Hagaskóla þegar ég var í 10. bekk, það var ágætur undirbúningur og espaði upp keppnisandann í mér. Svo var ég liðsstjóri í MR í fyrra, svo það var næsta skref að reyna að komast inn í liðið,“ segir Katrín Agla Tómasdóttir, einn þriggja keppenda Menntaskólans í Reykjavík sem unnu Gettu betur þetta árið með glans.

Katrín Agla er á öðru ári í MR og verður þar tvö ár í viðbót en þarf að finna sér nýja fylgismenn í keppnina að ári því hinir eru að útskrifast. „Því miður,“ segir hún „En það eru alltaf liðsstjórar að hjálpa okkur á æfingum og þeir gætu komið inn.“

En hvernig fer hún að því að vita alla skapaða hluti? „Ég reyni að fylgjast vel með fréttum, það er örugglega það mikil­vægasta,“ segir hún og henni er kurteislega bent á að tæplega læri hún að þekkja hljóðin í vaðfuglinum jaðrakan þar. „Nei, það er grúskað inn á milli,“ segir hún hlæjandi.

Nú vil ég vita hverra manna daman er. „Anna Guðmundsdóttir, kennari í Melaskóla, er mamma mín og Tómas Sigurðsson, lögfræðingur í Íslandsbanka, pabbi minn,“ upplýsir hún og er spurð hvort hún sé sjálf farin að velta fyrir sér framtíðarbraut. „Ég hugsa að ég fari í háskólann í verkfræði. Það er það sem heillar mig mest núna en veit samt ekki alveg hvað verður.“

Í sumar kveðst Katrín Agla að öllum líkindum vinna í Vínberinu á Laugavegi. „Ég var þar í fyrrasumar og það er rosalega góður vinnustaður. Reyndar er það að fara í gegnum breytingar núna og verður opnað sem ný búð í júní,“ segir hún.

„Miðbæjarrotta? Ég er náttúrlega í MR sem er í hjarta borgarinnar og bý í Vesturbænum svo ég er ansi mikið í miðbænum. Pabbi býr reyndar í Grafarvoginum svo ég fer stöku sinnum upp fyrir Elliðaár,“ segir hún glaðlega og kveðst líka hafa dálæti á Vestfjörðum.

Nú tekur okkar kona lífinu með ró og situr á kaffihúsi með vinum sínum niðri í bæ enda er komið langþráð páskafrí. Viðurkennir að undirbúningur keppnanna hafi kostað talsverða yfirlegu. „Maður þarf alltaf að leggja smá á sig til að ganga vel og ná árangri.“



Greinin/fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. mars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×