Viðskipti innlent

Síðasta skrefið

Stjórnarmaðurinn skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lýsti því yfir á dögunum að til standi að afnema gjaldeyrishöftin á þessu ári. Það eru svo sem ekki ný tíðindi að afnám sé á dagskránni, en stóra nýmælið felst í því að nefnd hafi verið sérstök tímasetning. Ríkisstjórnin getur nú vart annað en látið til skarar skríða, fyrr en síðar.

Vitaskuld er margs konar óhagræði falið í gjaldeyrishöftunum. Fyrir það fyrsta eru miklar takmarkanir á erlendum lánveitingum og fjárfestingum íslenskra félaga erlendis. Sýnu alvarlegri er þó sá raunveruleiki að gjaldeyrishöftin fæla frá erlenda fjárfestingu. Sú staðreynd ein og sér að á Íslandi séu gjaldeyrishöft nægir til að alþjóðlegir fjárfestar leiti annað. Það er nefnilega í senn framandi og flókið að glíma við gjaldeyrishöftin. Auðveldara er þá að fjárfesta í umhverfi sem þú þekkir.

Gjaldeyrishöftin leggja líka stein í götu lífeyrissjóðanna, sem í núverandi umhverfi eiga þann kost einan að fjárfesta í innlendum eignum. Það veldur því að skortur er á fjárfestingakostum fyrir sjóðina. Í því samhengi nægir að skoða hluthafalista skráðra félaga á Íslandi. Lífeyrissjóðirnir eru þar nánast einráðir. Þeir láta þó ekki þar við sitja heldur eru líka fyrirferðarmiklir í óskráðum félögum, og nánast hverju öðru sem hægt er að festa í fé.

Þessi staða er auðvitað ekki heilbrigð og ýtir undir bólumyndun í hagkerfinu.

Fjármálaráðherra boðar að í stað gjaldeyrishaftanna komi svokallaðar varúðarreglur, sem væntanlega eiga að tryggja jafnvægi í hagkerfinu. Spennandi verður að sjá útfærsluna á þeim. Verður um raunverulegt afnám haftanna að ræða, eða er einungis verið að finna höftunum nýtt og þægilegra nafn?

Hvað sem því líður er ljóst að afnám hafta er gríðarstórt hagsmunamál fyrir fólk og fyrirtæki í landinu, og í raun lokahnykkurinn í því að skipa Íslandi á ný á bekk siðaðra þjóða í efnahagsmálum. Vonandi tekst vel til og Ísland getur tekið síðasta skrefið úr myrkrinu og inn í ljósið.

Stjórnarmaðurinn er sigldur innherji með puttann á púlsinum. Stjórnarmaðurinn er ekki blaðamaður Fréttablaðsins en skrifar í Markaðinn á miðvikudögum og liggur ekki á skoðunum sínum um menn og viðskiptaleg málefni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×