Lífið

Måns-áhrifanna gætir víða: Greta Salóme sögð augljósasta dæmið um það

Birgir Olgeirsson skrifar
Måns Zelmerlöw vann Eurovision í fyrra með lagið Heroes en atriðið sjálft hefur haft mikil áhrif á aðra flytjendur í undankeppnum í Evrópu.
Måns Zelmerlöw vann Eurovision í fyrra með lagið Heroes en atriðið sjálft hefur haft mikil áhrif á aðra flytjendur í undankeppnum í Evrópu. Vísir/YouTube
Måns Zelmerlöw heillaði ekki aðeins áhorfendur Eurovision með frábærum flutningi á sigurlaginu Heroes í Vín í Austurríki í fyrra heldur vakti sviðsframkonan ekki síður athygli. Um var að ræða samspil manns og tækni en Måns hreyfði sig í takt við grafík sem var varpað fram á LED-skjá fyrir aftan hann þannig að svo virtist sem grafíkin og Måns rynnu saman.

Einn af fylgifiskum Eurovision-keppninnar er sá að fram kemur sigurvegari sem á eftir að hafa mikil áhrif á næstu keppnir þar á eftir. Fiðlan gekk til að mynda í endurnýjun lífdaga eftir að hinn norski Alexander Rybak bar sigurorð í keppninni með Fairytale árið 2009.

Þá gætir enn áhrifa hinnar sænsku Loreen sem vann árið 2012.

Fjallað er um Måns-áhrifin á vefnum Eurovisionary en þar er sagt frá eistneska söngvaranum Mick Pedaja sem flutti lagið Seis í undankeppni Eista fyrir Eurovision. Pedaja náði inn í úrslitin í heimalandi sínu en Eistar völdu Jüri Pootsmann sem sinn fulltrúa með lagið Play.

Á meðan hann flutti lagið varð Pedaja hluti af grafíkinni sem birtist á skjánum fyrir aftan hann og þótti tóna vel við lagið sjálft sem er sveipað mikilli dulúð.

Áhrifa Måns gætti einnig í Melodifestivalen í Svíþjóð, sem er undankeppnin fyrir Eurovision þar í landi. Hin nítján ára gamla Wiktoria nýtti sér sömu tækni og Måns á meðan hún flutti lagið Save Me.

Líkt og Pedaja varð hún hluti af grafíkinni sem birtist á skjánum fyrir aftan hana. Hún hafnaði í fjórða sæti í Melodifestivalen en Svíar völdu hinn sautján ára gamla Frans sem sinn fulltrúa með lagið If I were sorry.

Þá nefnir Eurovisionary til sögunnar atriði Gretu Salóme í Söngvakeppni Sjónvarpsins sem augljósasta dæmið um hvaða áhrif atriði Måns hafði. Greta Salóme varð hlutskörpustu í keppninni hér heima með lagið Hear Them Calling en líkt og Måns hreyfir Greta Salóme sig í takt við grafík sem birtist fyrir aftan hana á meðan hún flutti lagið.

Segir á vef Eurovisionary að sviðsframkoma Gretu sé mögulega framför á því sem Måns bauð upp á þegar kemur að samspili flytjandans og grafíkurinnar.

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fer fram í Stokkhólmi daganna 10., 12. og 14. maí næstkomandi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.