Innlent

Fagnar tillögum um virkjunarkosti í neðri hluta Þjórsár

Höskuldur Kári Schram skrifar
Jón Gunnarsson formaður atvinnuveganefndar stofnaði til sérstakrar umræðu um raforkuöflun og dreifikerfi raforku á Alþingi í fyrradag.
Jón Gunnarsson formaður atvinnuveganefndar stofnaði til sérstakrar umræðu um raforkuöflun og dreifikerfi raforku á Alþingi í fyrradag. Vísir/Anton Brink
Jón Gunnarsson formaður atvinnuveganefndar Alþingis fagnar þeirri ákvörðun verkefnisstjórnar rammaáætlunar að setja virkjanir í neðri hluta Þjórsár í nýtingarflokk.

Verkefnisstjórnin kynnti í dag tillögur að rammáætlun. Samkvæmt þeim verða sjö virkjunarkostir settir í nýtingarflokk.

Það eru Skrokkölduvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun á Þjórsársvæðinu. Austurengjar á Krýsuvíkursvæði, Hverahlíð II og Þverárdalur á Hengilssvæði og svo Blöndulundur.

Jón Gunnarsson formaður atvinnuveganefndar Alþingis fagnar þessari ákvörðun.

„Það eru settir í nýtingarflokk þeir kostir sem að meirihluti atvinnuveganefndar lagði mesta áherslu á. Þ.e. neðri hluti Þjórsár og Skrokkalda. Það er fallist á þau rök sem að meirihluti atvinnuveganefndar færði fyrir sinni tillögu á þeim tíma varðandi þessa þrjá virkjunarkosti,“ segir Jón.

Verkefnisstjórnin leggur ennfremur til að fjögur svæði sem ná til tíu virkjunarkosta fari verndarflokk. Það er Héraðsvötn, Skjálfandafljót, Skaftá og Þjórsá-vestur.

Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands líst vel á þessar tillögur.

„Að mínu mati eru nokkrar mjög góðar niðurstöður t.d. varðandi Héraðsvötn og Skjálfandafljót. Það eina sem okkur þykir slæmt á þessu stigi máls er Skrokkölduvirkjun vegna þess að við erum í hópi þeirra félagasamtaka sem hafa lagt til að hálendið allt verði gert að þjóðgarði og Skrokkölduvirkjun myndi koma sem sár inn í þann þjóðgarð,“ segir Árni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×