Erlent

FBI gæti haldið leyndu hvernig snjallsími Apple var opnaður

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá mótmælum til stuðnings Apple í Bandaríkjunum.
Frá mótmælum til stuðnings Apple í Bandaríkjunum. Vísir/AFP
Alríkislögregla Bandaríkjanna gæti haldið því leyndu hvernig þeir komust inn í iPhone síma eins árásarmannsins í San Bernardino. Stefna yfirvalda þar í landi er þó að gera grein fyrir öryggisgöllum sem ríkisstofnanir finna í tækjum og hugbúnaði. Apple hefur farið fram á að FBI leysi frá skjóðunni.

Þrátt fyrir áðurnefnda stefnu yfirvalda er hún háð undanþágum varðandi löggæslu. Sérfræðingar sem Reuters ræddi við segjast búast við því að FBI muni ekki segja frá aðferðum sínum.

Apple og FBI hafa deilt undanfarna mánuði vegna símans og höfðaði FBI meðal annars dómsmál til þess að reyna að fá Apple til að opna símann.

Fyrr í vikunni tilkynnti FBI hins vegar að síminn hefði verið opnaður með hjálp þriðja aðila. Því var fallið frá kröfunni gegn Apple. Þar hafði verið krafist þess að Apple myndi útbúa nokkurs konar bakdyraleið í símann. Fyrirtækið sagði hins vegar að slík leið myndi ógna öryggi allra viðskiptavina sinna.

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur hins vegar einnig lagt fram kröfu um að Apple opni síma í New York sem tengist rannsókn á fíkniefnamáli. Ekki hefur verið fallið frá þeirri kröfu. Verði það ekki gert gæti Apple þvingað FBI til að gefa upp hvernig sími Syed Farook var opnaður.


Tengdar fréttir

Apple hrósar sigri gegn FBI

Bandaríska alríkislögreglan, FBI, hætti við málaferli sín gegn Apple eftir að hafa tekist að brjótast inn í síma sakbornings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×