Skoðun

Grunnlífeyrir skertur á ný vegna lífeyrissjóða!

Björgvin Guðmundsson skrifar
Í tillögum um endurskoðun almannatrygginga er gert ráð fyrir því, að grunnlífeyrir verði skertur á ný vegna greiðslna úr lífeyrissjóði. Lengi vel var samstaða um það, að ekki mætti hreyfa við grunnlífeyri almannatrygginga. Hann væri heilagur. Og þannig er þetta í Noregi. Þar fá allir grunnlífeyri án tillits til tekna. Á krepputímanum hér var talið nauðsynlegt vegna fjárhagserfiðleika að skerða grunnlífeyri. Félag eldri borgara í Rvk og LEB mótmæltu þessu og kröfðust þess, að þessi skerðing yrði afnumin. Við því var orðið 2013 eftir þingkosningarnar. Það er því furðulegt, að nú skuli strax eiga að byrja að skerða grunnlífeyri á ný vegna lífeyrissjóða.

Ég tel tillögurnar um endurskoðun almannatrygginga meingallaðar. Stærsti gallinn er sá, að það er engin kjarabót fyrir lægst launuðu lífeyrisþegana, þá sem eingöngu hafa tekjur frá TR. Þeir fá enga hækkun. Þó er það viðurkennt, að ekki sé unnt að lifa af hinum lága lífeyri. Annar stór galli er sá, að skerðingarhlutfallið, 45%, er alltof hátt eins og Landssamband eldri borgara hefur bent á. Í Noregi er engin skerðing og í Danmörku 30% eftir frítekjumark. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sendi eldri borgurum bréf fyrir síðustu kosningar og lofaði að afnema allar tekjutengingar almannatrygginga. Samkvæmt því átti að afnema alveg skerðingu lífeyris aldraðra hjá TR vegna lífeyrissjóða. Það hefði legið beint við að efna þetta loforð við endurskoðun almannatrygginga. En þvert á móti er ný skerðing tekin upp á grunnlífeyri.

Samkvæmt tillögum um TR eru öll frítekjumörk felld niður. Af því og háu skerðingarhlutfalli leiðir, að skerðing lífeyris aldraðra hjá TR vegna atvinnutekna eykst og erfiðara fyrir eldri borgara að vinna, ef þeir hafa heilsu til. Skerðing vegna greiðslna úr lífeyrissjóði minnkar lítið þrátt fyrir loforð um að afnema hana alveg.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×